Fara á efnissvæði
01. ágúst 2019

Unnur ánægð að vera komin í áskrift að Unglingalandsmóti UMFÍ

„Við fjölskyldan fórum í fyrsta sinn á Unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn í fyrra. Við vorum heilluð, það var svo margt í boði fyrir alla fjölskylduna. Við hjónin skemmtum okkur jafn vel og dóttir okkar,“ segir Unnur Steinsson, framkvæmdastjóri Fransiskus hótelsins í Stykkishólmi.

Dóttir Unnar og Ásgeirs, manns hennar, varð ellefu ára á síðasta ári og hafði þá aldur til að taka í fyrsta sinn þátt á Unglingalandsmóti UMFÍ. Þau hjónin vissu hins vegar ekkert um mótið fyrr en þau fluttu úr höfuðborginni í Hólminn fyrir fjórum árum.

„Í Stykkishólmi voru allir að tala um landsmót þetta og landsmót hitt. Við héldum að þetta væri eingöngu fyrir keppnisfólk sem ætlaði sér langt. En þegar við kynntum okkur mótið betur þá kom mér mjög á óvart hvað margt er þar í boði. Dóttir okkar og vinkona hennar skráðu sig í fótbolta, upplestur og fleiri greinar. Þær voru ekki í liði og voru því settar í lið með jafnöldrum sínum annars staðar af landinu og eignuðust nýjar vinkonur. Þegar upp var staðið var svo mikið að gerast á mótinu að stelpurnar gátu ekki tekið þátt í öllu sem þær ætluðu sér. Mótið í Þorlákshöfn var algjörlega til fyrirmyndar, við vorum á sérmerktum tjaldstæðum með öðrum af sama sambandssvæði. Þarna var allt til alls og vel hugsað um að halda svæðinu hreinu. Þetta var alveg frábær upplifun og æðisleg samvera fjölskyldunnar,“ segir Unnur.

Unnur og Ásgeir eiga alls sjö börn og eru sex þeirra uppkomin. Ásamt þeim eiga þau nokkur barnabörn sem detta fljótlega á unglingalandsmótsaldurinn.

Unnur segir að verslunarmannahelgin verði því bókuð undir Unglingalandsmót í framtíðinni, fyrst með yngstu dóttur þeirra en síðan með börnum og barnabörnum.

„Nú er ég loksins komin í áskrift að Unglingalandsmóti
UMFÍ!“

 

Viðtalið við Unni birtist í sérblaði Unglingalandsmóts UMFÍ 2019 sem gestir á Höfn í Hornafirði fá afhent við komu á mótið. 

Allt um Unglingalandsmót UMFÍ á www.ulm.is