Fara á efnissvæði
06. desember 2021

Uppistandari með skipstjórnarréttindi í Ungmennabúðum UMFÍ

Heilmiklar breytingar urðu á skipulagi Ungmennabúða UMFÍ á Laugarvatni í haust. Sigurður Guðmundsson tók við sem forstöðumaður búðanna út skólaárið auk þess sem tómstunda- og félagsmálafræðingarnir Halldóra Kristín Unnarsdóttir og Ingveldur Gröndal bættust í hóp frábærra starfsmanna.

„Það er heilmikil stemning hjá okkur, krakkarnir hressir og kátir og góður andi úti um allt,“ segir Halldóra Kristín Unnarsdóttir, tómstunda- og félagsmálafræðingur. Þær Ingveldur Gröndal eru nýjustu starfsmennirnir í Ungmennabúðum UMFÍ á Laugarvatni og bættust báðar í hópinn í haust.

Halldóra er reynslubolti í tómstundafræðum og kemur úr félagsmiðstöðvaheiminum. Halldóra er frá Rifi á Snæfellsnesi sem er á sambandssvæði Héraðssambands Snæfells- og Hnappadalssýslu (HSH).

 

 

Hún æfði knattspyrnu með Umf. Reyni á Hellissandi frá sex ára aldri til 18 ára. Á Snæfellsnesi stýrði hún m.a. félagsmiðstöðinni í Snæfellsbæ. Nú síðast var hún aðstoðarforstöðumaður Laugó, félagsmiðstöðvar á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar í Laugalækjarskóla. Halldóra er hæstánægð með að vera komin á Laugarvatn.

„Mér lýst svakalega vel á þetta, enda nóg um að vera hjá nemendunum. Þetta hefur auðvitað líka áhrif á mig og hin sem vinnum í Ungmennabúðunum, því að vinna með unglingum krefst þess að við uppfærum okkur og lærum ýmislegt nýtt. Unglingar eru nefnilega síbreytilegir og við hin þurfum að fylgja þeim í öllu því markvissa en óformlega námi sem fer fram á Laugarvatni,“ segir Dóra eins og hún er yfirleitt kölluð.

„Í Ungmennabúðunum er heilmikið óformlegt nám. Nemendurnir koma hingað til að læra og við kennum þeim eins mikið og við getum, svo sem félagsfærni og ýmislegt fleira sem þau læra í gegnum leiki,“ segir hún.

 

 

Dóra þekkir sjálf ágætlega til óformlegs náms eins og þess sem fram fer í Ungmennabúðunum á Laugarvatni. Hún fór í Hússtjórnarskólann á Hallormsstað og fór eftir útskrift þaðan að læra fatahönnun í lýðháskólanum Den Skandinaviske Designhøjskole í Danmörku. Það var árið 2006. Eins og þeir sem hafa stundað nám í lýðháskóla þekkja lifir reynslan af því með þeim fyrir lífstíð. „Maður þarf stundum að fara langt til að ná sér í góða reynslu,“ segir Dóra, sem er að bæta við sig í tómstundafræðunum og er í meistaranámi við Háskóla Íslands í stjórnun og þróunarstarfi.

 

Trillustjórinn Dóra

Fólk á sér leyndar og oft stórskemmtilegar hliðar. Það á líka við um Dóru. Hún hefur getið sér gott orð sem uppistandari og hefur hitað upp fyrir Ara Eldjárn. Hún lumar á pungaprófi og vélstjóraréttindum frá Stýrimannaskólanum, sem hún fór í árið 2011. Nú er hún með réttindi til að stýra 24 metra báti. Foreldrar Dóru eiga útgerðina Andrann, sem gerir út samnefnda trillu á strandveiðar frá Rifi. Dóra fór fyrst á grásleppuveiðar með föður sínum en hefur ekki getað sleppt úr sumri á strandveiðum síðastliðin tíu ár. „Þetta er alveg geggjað,“ segir hún. „Fyrir mér er sumarið komið þegar ég fer á sjóinn.“

 

Fær nemendur til að stíga út fyrir þægindarammann

„Þetta verður seint talið leiðinlegt starf. Það er svo áhugavert að hjálpa ungu fólki að stíga út fyrir þægindarammann, kenna krökkunum að koma fram og efla sig í samskiptum. Það er kannski vandræðalegt og erfitt en er svo mikilvægt fyrir fullorðinsárin,“ segir Kópavogsbúinn og tómstunda- og félagsmálafræðingurinn Ingveldur Gröndal. Hún útskrifaðist úr námi í sumar og byrjaði að vinna í Ungmennabúðum UMFÍ nú í haust.

 

 

Ingveldur er hæstánægð með að fá vinna við það sem hún lærði strax eftir útskrift. Hún viðurkennir reyndar að hún sé enn að fóta sig og máta í starfið en um leið fái hún tækifæri til að nýta færni sína til að kenna ungmennunum.

„Nám mitt nýtist 150% á Laugarvatni. Nemendurnir halda mér á tánum því að ég þarf alltaf að vera að velta því fyrir mér hvernig hægt er að gera kennsluna skemmtilega. Það skiptir líka máli að námið sé áhugavert því að nemendunum finnst sumt vandræðalegt og svolítið erfitt, sérstaklega að koma fram,“ segir hún. Þetta er allt saman áskorun,“ segir Ingveldur sem er jafnframt er þjálfari hjá ráðgjafarfyrirtækinu Kvan og þjálfar þar börn og unglinga.

„Þetta er mín hilla og ég er mætt á hana,“ bætir Ingveldur við.

 

Allt það jákvæða í COVID-faraldrinum

Stór hluti af háskólanámi Ingveldar fór fram í skugga COVID-faraldursins og einkenndist af heimanámi og fjarnámi á samskiptaforritum. Hún lét það hins vegar ekki draga sig niður. Þvert á móti er hugarfar Ingveldar slíkt að hún sér það jákvæða í öllu. Hún ákvað því að gera allt það jákvæða í COVID að meginefni lokaritgerðar sinnar við Háskóla Íslands. „Ég var orðin þreytt á neikvæðu fréttunum og ákvað að fara aðra leið, óskaði eftir jákvæðum frásögnum frá fólki, bjó til Facebooksíðu og Instagram-síðu þar sem fólk gat skrifað sögu sína. Mig langaði einfaldlega að búa til eitthvað sem varðveitir það jákvæða sem kom út úr COVID. Ég fékk góð viðbrögð,“ segir hún og bætir við að auðvitað hafi margt verið leiðinlegt við COVID.

 

 

En margt jákvætt hafi líka komið út úr faraldrinum.

„Við þurftum að vera meira heima, breyta lífi okkar, verða heilbrigðari, eiga í meiri rafrænum samskiptum og svo má lengi telja. Og nú sér fólk að það getur unnið heima og metur samveruna meira með öðru fólki,“ segir hún.

 

Viðtalið birtist í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þú getur smellt á forsíðu blaðsins hér að neðan og lesið greinina í rafrænni útgáfu blaðsins.