Fara á efnissvæði
20. janúar 2025

Upplýsandi formannafundur HSK

Betra er að vera búinn að skrá félagið á Almannaheillaskrá Skattsins komi upp sú staða að stuðningsfólk félaga vill leggja félagi sínu lið. Þau sem það gera geta fengið hluta stuðningsins metinn til frádráttar frá skatti. Það eykur líkurnar á stuðningi, að sögn Helga S. Haraldssonar, varaformanns Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK). Á formannafundi HSK í síðustu viku fór hann yfir flest það sem gera þarf til að skrá félagið á Almannaheillaskrá Skattsins og ávinning þess bæði fyrir félagið og bakhjarla. 

Helgi er jafnframt formaður Ungmennafélags Selfoss, sem er aðildarfélag HSK. Benti hann á að fyrir tveimur árum hafi félagið tekið þá ákvörðun að færa allar deildir á skrána. 

Ágætlega var mætt á formannafund HSK eða rúmlega 30 fulltrúar aðildarfélaga. Boð á fundinn fengu formenn og framkvæmdastjórar aðildarfélaga, stjórn HSK og formenn nefnda og sérráða HSK.

Á fundinum voru fjögur mál og verkefni kynnt sérstaklega með framsögu og fundarfólki gafst svo færi á að bera fram fyrirspurnir eða leggja eitthvað til málanna.

Valdimar Gunnarsson, verkefnastjóri Allir með, fjallaði um verkefnið og Íslandsleikana, sem haldnir verða á Selfossi dagana 29. – 30. mars. Allir með er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ og Íþróttasambands fatlaðra og hefur það að markmiði að fjölga tækifærum fatlaðra til íþróttaiðkunar í samstarfi við íþróttahreyfinguna.

Svæðisfulltrúarnir Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir og Rakel Magnúsdóttir voru næstar á dagskrá með kynningu á svæðisstöðvum íþróttahreyfingarinnar, sem hófu starfsemi sína síðastliðið haust. Þau ræddu jafnframt um verkefni sín og það sem er í farvatninu. Þær sögðu meðal annars frá því að svo sé sem brú vanti á milli íþróttahreyfingarinnar og hinna ýmsu verkefna sem unnin eru á vegum sveitarfélaga. Svæðisfulltrúarnir vinni nú að því að byggja þær brýr. 

Á eftir þeim steig Helgi á stokk og ræddi um skráningu á Almannaheillaskrá Skattsins.
Að því loknu flutti Engilberg Olgeirsson, framkvæmdastjóri HSK, erindi um breytingar á lottóreglugerðum hreyfingarinnar. Hann fór yfir úthlutun lottótekna ÍSÍ og UMFÍ til HSK fyrir og eftir reglugerðarbreytingar sem tóku gildi á síðasta ári.

Fram kemur í skeyti frá HSK, að fundurinn hafi verið upplýsandi um þau mál sem tekin voru fyrir.