Fara á efnissvæði
11. mars 2020

Upplýsingar vegna kórónaveirunnar COVID-19

Á öllum starfsstöðvum UMFÍ;  ungmennabúðum á Laugarvatni og þjónustumiðstöðvum í Reykjavík og á Sauðárkróki hefur verið gripið til viðbragða sem felast í sértækum þrifum á sameiginlegum rýmum og sótthreinsandi spritt er aðgengilegt í almenningsrýmum. Þá hafa sambandsaðilar UMFÍ um allt land gripið til svipaðra aðgerða.

UMFÍ hefur átt í samskiptum við yfirvöld og m.a. fundað með sóttvarnalækni og yfirlögregluþjóni. UMFÍ  fylgir fyrirmælum yfirvalda eins og þau eru hverju sinni. Eins og staðan er nú eru allir viðburðir skv. áætlun en vissulega skal þó upplýst að staðan gæti breyst með skömmum fyrirvara og mun UMFÍ leggja sitt af mörkum við að koma upplýsingum og aðgerðum fljótt og vel til skila.

Vitað er að COVID-19 veiran lifir í ákveðinn tíma á yfirborði hluta, allt frá nokkrum klukkutímum til nokkurra daga. Hægt er að draga mjög úr útbreiðslu hennar með því að huga vel að hreinlæti yfirborðsflata, hurðarhúnum, handriðum, ljósrofum, æfingatækjum, boltum og öðru sem fólk þarf að snerta á til að nota. Eins verður hver og einn að leggja sitt af mörkum, s.s. með vandlegum handþvotti með sápu og notkun spritts, forðast snertingu við augu, nef og munn og halda handaböndum í lágmarki, sem og faðmlögum og annarri snertingu.

Í stað handabanda hvetur UMFÍ til að fólk brosi hvert til annars og bjóði góðan dag.

UMFÍ minnir á bréf og plakat sem hægt er að prenta út og hengja upp til áminningar. Auk þess mælir UMFÍ með öllu efni sem er aðgengilegt á vef Embættis landlæknis: www.landlaeknir.is.

Sérstök athygli er vakin á bæklingi á auðlesnu máli, sem gæti nýst vel í umfjöllun fyrir börn og ungmenni: https://www.throskahjalp.is/static/files/ko-ro-na-veiran-a-audlesnu-ma-li.pdf