Fara á efnissvæði
08. nóvember 2019

Vanda hlaut Hvatningarverðlaun Dags gegn einelti

Vanda Sigurgeirsdóttir heyrði orðið einelti í fyrsta sinn árið 1989. Þá var hún 24 ára í skóla í Svíþjóð. „Ég fékk hita í kinnar, hjartslátt og tár í augun því þá áttaði ég mig á því að þótt ég hafi útskrifast með brosi á vör úr grunnskóla og átt góða vini og góðar minningarþá átti það ekki við um alla. Sumir voru brotnir og beygðir. Ég varð vitni að stríðni en gerði ekki neitt. Það eru ömurlegar minningar. En ég get núna hjálpað til og breytt framtíðinni og ég hef verið að gera það í 30 ár,“ sagði hún í dag.

Vanda hlaut í dag hvatningarverðlaun Dags gegn einelti. Verðlaunin eru afhent þeim einstaklingi eða aðila sem talinn er hafa lagt mikið af mörkum til að gera samfélagið betra.

 

 

Vanda er með meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræðum og leggur nú stund á doktorsnám þar sem viðfangsefnið er einelti. Vanda starfar sem lektor í tómstunda- og félagsmálafræðum við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Sérsvið hennar við háskólann er einelti og tómstunda- og leiðtogafræði.

Vanda hefur allan sinn starfsferil starfað með börnum og fullorðnum að eineltis og samskiptamálum og er þekkt fyrir vinnu sína bæði hér heima og á erlendum vettvangi. Forvarnir gegn einelti eru hennar hjartans mál. Hún hefur jafnframt skrifað greinar og bókakafla og staðið fyrir fræðslu fyrir bæði börn og fullorðna um jákvæð samskipti.

Það var Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem afhenti Vöndu verðlaunin við hátíðlega athöfn í Vatnsendaskóla í Kópavogi.  

 

UMFÍ vinnur gegn einelti

UMFÍ er eitt af fjórum aðildarfélögum Æskulýðsvettvangsins (ÆV) en á meðal verkefna hans er að vinna gegn einelti. Um þessar mundir er stafrænt einelti ein af þeim birtingarmyndum ofbeldisins og vinnur Æskulýðsvettvangurinn gegn því.

Einelti er ekki liðið innan þeirra félaga sem saman mynda Æskulýðsvettvanginn (UMFÍ, Bandalag íslenskra skáta, Slysavarnafélagið Landsbjörg og KFUM og KFUK á Íslandi). Það er mjög mikilvægt að öllum líði vel í leik og starfi innan félaga UMFÍ og að sá grundvallarréttur, að fá að vera óáreittur, sé virtur. Því er mikilvægt að bregðast strax við málum sem koma upp í starfinu og leita allra leiða til þess að leysa úr þeim hratt og vel.

Sambandsaðilum UMFÍ stendur til boða að fá til sín námskeið um einelti, forvarnir og úrvinnslu eineltismála sem og námskeið um hatursorðræðu á netinu. 

 

Hafðu samband

Á vegum Æskulýðsvettvangsins starfar fagráð sem tekur til umfjöllunar kynferðisbrotamál og eineltismál sem koma upp innan aðildarfélaga ÆV.

Hafir þú orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, einelti eða annarri óæskilegri hegðun innan aðildarfélaga Æskulýðsvettvangsins eða veist um slíkt ofbeldi býðst þér að hafa samband við fagráðið í gegnum netfangið fagrad@aeskulydsvettvangurinn.is.

Fagráðið sér um að þú fáir þann stuðning sem þú þarft á að halda og leiðbeinir þér um næstu skref.

 

Meira um námskeiðin sem eru í boði

Aðgerðaáætlun Æskulýðsvettvangsins