Fara á efnissvæði
20. janúar 2020

Veiga Grétarsdóttir: Líf mitt sem kona er rétt að byrja

Íþrótta- og ungmennafélög standa frammi fyrir ýmiss konar áskorunum til að gera iðkendum sínum kleift að njóta þess að stunda íþróttir. Veiga Grétarsdóttir, formaður Siglingaklúbbsins Sæfara á Ísafirði, benti á það nýverið að ekkert í jafnréttisáætlunum héraðssambanda og íþróttafélaga taki til málefna transfólks. Veiga fór í gegnum kynleiðréttingu fyrir nokkrum árum. Hún segir félögin standa sig yfirleitt vel en er með nokkur ráð fyrir íþróttafélög um það hvernig þau geti látið iðkendum líða betur.

„Transfólk er miklu fjölmennara en fólk heldur og kynleiðréttingar algengari. Hér á Ísafirði búa tvö þúsund manns og ég veit um sex transeinstaklinga en ekki allir hafa farið í gegnum kynleiðréttingarferli. Að minnsta kosti tveir hefja ferlið á Íslandi í hverjum mánuði. Fólk áttar sig ekki á því. Þess vegna þurfa íþróttafélög að gera allt sem þau geta til að koma til móts við þarfir iðkenda, alveg sama hverjar þær eru. Við erum öll manneskjur,“ segir Veiga.

 

 

Veiga hefur verið kraftmikil baráttukona fyrir réttindum transfólks og vakti mikla athygli þegar hún reri á kajak rangsælis í kringum Ísland sumarið 2019. Hún var ekki aðeins fyrsta íslenska konan til að gera það heldur fyrsta transmanneskjan í heiminum til að fara ein í svo langan og erfiðan leiðangur, eftir hennar bestu vitund. Verkefni sitt kallaði Veiga Á móti straumnum, sem er táknrænt á marga vegu. Ferðina fór hún til að vekja athygli á starfsemi Pieta-samtakanna og afla fjár fyrir samtökin. Veiga stoppaði á nokkrum stöðum á leiðinni og hélt fyrirlestra um líf sitt og kynleiðréttingarferli og Pietasamtökin, sem sinna forvarnastarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur þeirra sem þangað leita en talið er að um 40–50% þeirra sem fara í gegnum kynleiðréttingarferli reyni að taka eigið líf. Veiga hefur haldið fyrirlestrunum áfram eftir ferðina og farið víða með erindi sitt.

„Mitt líf er bara rétt að byrja! En fólk þarf að átta sig á því hvað það er að vera transmanneskja. Hluti af pælingunni minni með ferðinni um Ísland var að vekja þjóðina til umhugsunar um transfólk og stöðu þess í þjóðfélaginu. Íþróttafélögin þurfa líka að taka tillit til þess,“ segir Veiga sem sótti formannafund HSV í haust þar sem jafnréttisáætlun var til umræðu. Hún vakti þar athygli á því að ekkert væri fjallað um málefni transfólks í áætluninni.

„Það hefur verið lítið pælt í þessu. En HSV ætti að koma til móts við þarfir transfólks og setja það inn í jafnréttisáætlunina,“ segir Veiga.

 

Vildi frekar deyja sem kona

Veiga var 11–12 ára drengur þegar hún uppgötvaði að hún væri öðruvísi en strákar og sótti í að klæðast kvenmannsfötum. Veiga var búsett í Drammen í Noregi þegar hún hóf kynleiðréttingarferli sitt. Það byrjaði hjá sálfræðingi í janúar árið 2014 og með lyfjameðferð ári síðar. Því fylgir meðal annars hormónameðferð og ýmsar aðgerðir. Sú síðasta er eftir, en það er breyting á barkakýli hennar sem felur í sér að fjarlægja Adamseplið.

„Ég æfði skíði þegar ég var krakki og hef gert það alla ævi, líka eftir kynleiðréttinguna. Fyrir mér var það annaðhvort að ganga í gegnum þetta eða drepa mig. Ef læknirinn hefði sagt mér að það væru aðeins 20% líkur á að ég myndi lifa aðgerðina af hefði ég sagt honum að halda áfram. Fyrir mér var þetta eins og að sleppa úr fangelsi. Ég vildi bókstaflega frekar deyja sem kona en lifa áfram sem karlmaður.“

 

Skiptiklefar hjálpa

Veiga segir Drammen hafa verið ágætan stað til að hefja vegferðina því að aðstæður þar séu slíkar að hún gat haldið áfram að stunda íþróttir.

 

 

„Það hjálpaði mér sennilega að í sundlauginni þar eru karlaklefi og kvennaklefi og skiptiherbergi fyrir bæði einstaklinga og fjölskyldur. Fjölskyldan getur farið saman inn í svona klefa, lokað að sér, labbað inn á einum stað og komið út á öðrum, skipt um föt, sett fötin í tösku, gengið inn í sameiginlegt rými, sett töskuna í skápinn og fara þaðan í karlaeða kvennaklefann í sturtu. Þannig gat ég byrjað að fara í sund, ég var búin að fara í brjóstastækkun og komin með ávöl brjóst. Ég fór inn í klefa, teipaði draslið niður, klæddi mig í sundbol, pakkaði öllu í tösku og fór síðan í kvennaklefann í sturtu. Síðan fór ég í sund. Eftir það skolaði ég af mér og þurrkaði, náði í töskuna og fór aftur inn í klefann. Þar kláraði ég að þurrka mér,“ segir Veiga og telur að hægt sé að útfæra slíka klefa í sundlaugum og íþróttahúsum hér á landi.

 

Strákar fari í sundbol í sturtu

Veiga segir margar transkonur eiga erfitt með að taka þátt í íþróttum, sérstaklega í sundi. Það sé líka nokkuð stórt skref fyrir fólk að hoppa úr karlaklefanum í kvennaklefann eða öfugt. Af þeirri ástæðu einni verði að gera allt sem mögulegt sé til að auðvelda transfólki á öllum aldri að stunda íþróttir.

 

 

„Það eru reyndar ekki fordómar annarra sem stýra því heldur manns eigin hræðsla, held ég. Ég hef sjálf aldrei orðið fyrir fordómum í búningsklefanum. En ég er kannski svolítið köld. Ég fór í sund áður en ég fór í aðgerðina og fór bara beint í kvennaklefann. Þar fór ég inn á klósett, skipti um föt að neðan og límdi svo draslið fast á milli fótanna. Síðan fór ég í sundbolinn inni á klósetti eða vafði mig handklæði. Ég hef heyrt að typpi sé eitthvað sem konur vilja ekki sjá í kvennaklefanum en þær verða að átta sig á því að þetta er eitthvað sem við hötum og viljum að engin sjái þannig að við gerum allt til að fela það. Eins verða konur að átta sig að við lítum ekkert öðrum augum á þær eftir aðgerð en við gerðum fyrir, erum bara orðnar frjálsar og höfum ekkert til að skammast okkar fyrir lengur. Ég varð líka að gera þetta því ég vildi ekki missa af því að fara með dóttur minni í sund. Ég lenti í engu veseni, ekki einu sinni þegar hún kallaði mig pabba í sturtunni,“ segir Veiga, sem nýtur þess að fara í sund og sjó. Þegar viðtalið var tekið var hún að kenna fimmtán nemendum við lýðskólann á Flateyri tökin á kajökum. Það gerir hún á sjó og í sundlaug bæjarins og fer óhrædd í sund.

Veiga mælir með því að í sundlaugum verði ein lokuð sturta fyrir transfólk. Eða að þeim verði leyft að nota sturtu sem ætluð er fötluðum. Jafnvel mætti stúka eitt horn af í búningsklefum, gera smá rými svo viðkomandi geti farið inn og skipt óséður um föt. Það mætti líka að bjóða viðkomandi að nota klósettið til að skipta um föt.

„Í sundlaugum þarf að leyfa transfólki, sem hefur ekki farið í gegnum aðgerð, að fara í sundfötum í sturtu. Það verður að veita þeim undanþágu. Útlendingar á Íslandi fara sjaldnast í sturtu án sundfata. Við látum það ganga yfir okkur. Af hverjum ættum þá ekki að geta leyft einu eða tveimur transbörnum að gera það líka?“

 

Viðtalið við Veigu birtist í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ, síðasta tölublaði ársins 2019. Blaðið er hægt að lesa allt á vefsíðu UMFÍ, www.umfi.is

Lesa Skinfaxa