Fara á efnissvæði
27. ágúst 2020

Vel gekk að halda þing UÍA með fjarfundabúnaði

70. sambandsþing Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) fór fram síðdegis í dag. Í ljósi samkomutakmarkana og fjölda smita á Austurlandi taldi stjórn UÍA erfitt að stefna þingfulltrúum á sama staðinn en þó hvíldi sú skylda á sambandinu að halda þingið.

Til stóð að halda þing UÍA fyrr á þessu ári en var því frestað eins og hjá fleiri sambandsaðilum í vor vegna samkomubanns þar til í dag. Þingið nú fór fram með breyttu sniði því fjarfundarbúnaður var notaður til að halda þingið. Hugbúnaðurinn Teams var notaður til þess og var þingið hýst í þjónustumiðstöð UMFÍ í Reykjavík.

Tæplega 30 þingfulltrúar UÍA sátu þingið og voru þeir bæði á Austurlandi og í Reykjavík. Ef rýnt er í myndina sem tekin var í þjónustumiðstöð UMFÍ í dag má sjá hóp þingfulltrúa frá Leikni á Fáskrúðsfirði í einum glugganum.

Þingið var að mörgu leyti hefðbundið þrátt breyttar aðstæður. Þó var um nokkrar breytingar að ræða. Ekki voru veitt starfsmerki eins og hefð er fyrir á þingum UÍA vegna aðstæðna.

Líney Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, voru gestir þingsins og fluttu þar ávörp eins og venja er á hefðbundnum þingum.

„Þingið gekk mjög vel og fyrirtaks lausn að nýta fjarfundarbúnað til að halda það loksins. Öðrum sambandsaðilum UMFÍ stendur til boða að halda þing með þessum hætti og getum við aðstoðað með það,‟ segir Auður Inga og hvetur sambandsaðila sem hyggja á slíka lausn að hafa samband við þjónustumiðstöð UMFÍ.

UÍA er eitt 28 sambandsaðila UMFÍ og nær sambandssvæði þess frá Vopnafirði og niður að Djúpavogi. Sambandsaðilar skiptast í 21 íþróttahérað og 7 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 460 félög innan UMFÍ með rúmlega 300 þúsund félagsmenn.