Vel mætt á þing USVH

Fulltrúar aðildarfélaga Ungmennasambands Vestur-Húnvetninga (USVH) fjölmenntu á 84. héraðsþing sambandsins þegar það fór fram í félagsheimilinu Víðihlíð í Víðidal í gær. Af 26 atkvæðabærum félögum voru 23 fulltrúar mættir, sem er í meira lagi.
Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, formaður USVH, setti þingið, bauð fólk velkomið og fór yfir skýrslu stjórnar ásamt öðrum hefðbundnum störfum.
Gestir þingsins voru þau Sigríður Inga Viggósdóttir og Halldór Lárusson, svæðisfulltrúar íþróttahéraðanna á NV-landi, og þeir Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, kynningarfulltrúi UMFÍ, og Garðar Svansson, sem situr í stjórn ÍSÍ.
Svæðisfulltrúarnir kynntu vinnu sína. Bentu þau meðal annars á fjölbreytt íþróttastarf á sambandssvæði USVH. Unnið sé að frekari greiningu á skipulagi íþróttastarfs og standi yfir viðræður við ýmsa hagsmunaaðila á svæðinu. Þar á meðal er búið að ræða við hluta fulltrúa íþróttafélaga, forsvarsfólk sveitarfélaga og er stefnt að því að halda vinnustofu með starfsfólki og fulltrúum íþróttafélaga á NV-landi. Fram kom í máli svæðisfulltrúanna hversu víðtækt tengslanet þeirra er og miðlun upplýsinga sé mjög aðgengileg landshorna á milli.
Þeir Jón og Garðar héldu hvor sín erindin. Jón flutti kveðju frá stjórn og starfsfólki UMFÍ ásamt því að hvetja í máli sínu forsvarsfólk aðildarfélaga USVH til að sækja um í sjóðum íþróttahreyfingarinnar. Nefndi hann sérstaklega Hvatasjóð íþróttahreyfingarinnar, sem er nýr sjóður sem styrkir voru veittir í fyrsta sinn úr í vor. Stefnt er að því að hafa tvo umsóknarfresti á árinu og þrjá framvegis á hverju ári. Í sjóðnum eru 70 milljónir króna. Þá hvatti hann fólk jafnframt til að kynna sér og sækja um í Fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ og Umhverfissjóð UMFÍ.
Garðar ræddi m.a. um þróun íþróttahreyfingarinnar og aukið samstarf ÍSÍ og UMFÍ auk þess að minna á skráningu á Almannaheillaskrá Skattsins, enda sé það afar jákvætt skref hjá íþrótta- og ungmennafélögum.
Ekki var endurnýjun á stjórn USVH að því undanskildu að Guðný Helga Björnsdóttir kom ný inn sem ritari stjórnar auk þess sem nýir varamenn voru kosnir.
Hvetja til þátttöku á mótum UMFÍ
Fram kom á þinginu að á síðasta ári hafi tuttugu einstaklingar tekið þátt á Landsmóti UMFÍ 50+, þegar það fór fram á vegum Þróttar Vogum í Vogum á Vatnsleysuströnd í fyrra. Sömuleiðis voru þátttakendur undir merkjum USVH á Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fór í Borgarnesi.
Á meðal tillagna á þinginu var hvatning til forsvarsfólks aðildarfélaga USVH að taka þátt í mótum UMFÍ í sumar.
Landsmót UMFÍ fer fram á Siglufirði og Ólafsfirði dagana 27. – 29. júní og Unglingalandsmót UMFÍ verður á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina.
Meira um viðburðina hér:





