Fara á efnissvæði
04. október 2023

Við viljum vera meistarar í eigin lífi

„Við viljum verða meistarar í eigin lífi. Reynið því að ráða sem mestu í ykkar eigin lífi því þá mun ykkur ganga allt í haginn,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, við setningu Forvarnardagsins. Dagurinn var settur í Borgarholtsskóla í Reykjavík í morgun. Hann er haldinn árlega og var þetta átjánda skiptið sem hann er haldinn. 

Á Forvarnardeginum er sjónum beint sérstaklega að ungmennum í 9. bekk grunnskóla og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Áhersluefni dagsins eru ýmis forvarnarefni, svo sem sjónum beint að tengslum lýðheilsu við áfengisdrykkju, tóbaksnotkun og svefn. Í tengslum við daginn vinna nemendur skólanna verkefni á tímabilinu 4. til 20. október. 

Guðni ræddi um mikilvægi forvarna við nemendur Borgarholtsskóla sem mættu á setninguna. Hann sagðist hafa dottið í það en sé ekki stoltur af því vegna þess að hann hafi ekki haft fulla stjórn á sér. Af þeim sökum brýndi hann fyrir nemendunum og öllum þeim sem á hlýddu, meðal annars í netstreymi, að seinka því að byrja að drekka áfengi. Hvert ár skipti máli. 

Setningu Forvarnardagsins var streymt á netinu

Margir glíma við áskoranir

Embætti landlæknis fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins og vinnur að honum með forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Rannsóknum og greiningu, Planet Youth, UMFÍ og ÍSÍ, Samfés, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samstarfi félagasamtaka í forvörnum, Bandalagi íslenskra skáta og Heimili og skóla. 

Alma Möller landlæknir hélt sömuleiðis erindi og vakti athygli á því að af öllu mannkyni séu 10-19 ára einn milljarður talsins. Gera megi ráð fyrir því að 1 af hverjum 6 muni glíma við ýmsar áskoranir sem tengja má forvörnum. Þar á meðal misnota áfengi, tóbak, glíma við andlega erfiðleika og þar fram eftir götunum. Hún lagði jafnframt áherslu á mikilvægi þess að leita sér hjálpar á erfiðum stundum. 

Hún gerði því þeim vernandi þáttum hátt undir höfði sem hafa jákvæð áhrif á líðan fólks og geta skipt sköpum. Þar skiptir máli þátttaka í skipulögðu starfi og tengslamyndun við annað fólk.  

 

MIkilvægt að sofa vel

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, sagði frá því þegar hann var unglingur í Árbænum hafi margt jákvætt gerst í forvarnarmálum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi borgarstjóri, frumkvöðlar í hópi foreldra og íþróttahreyfingin snúið bökum saman til að bæta heilsu og bakland ungs fólks. Ljóst sé að íslenskra forvarnarmódelið sé að virka. 

„Við tölum ótrúlega lítið um þetta,“ sagði hann og benti á að mörg lönd líti á Ísland sem fyrirmynd í forvarnarmálum ungmenna. Þar á meðal sé Kanada og Chile og mörg önnur sem hafa sent fulltrúa hingað til að kynna sér málið.

Dagur sagði unglingana nú til fyrirmyndar og tók við keflinu frá Ölmu til að minna á mikilvægi góðs nætursvefns. Hann sagði fáránlegt að hefja skóladag barna og ungmenna klukkan átta á morgnana og þurfi að skipuleggja upphaf skóla og síðan íþróttastarf í samræmi við það. 

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, þekkingarstjóri hjá Planet Youth, fór yfir niðurstöður kannana sem benda til að forvarnir skili árangri. Hún fór yfir lykilþætti sem hjálpa ungmenn að velja heilbrigðan lífsstíl. Hún kynnti jafnframt íslenska forvarnarmódelið og benti á mikilvægi góðra tengsla foreldra og barna. Hún sagði líka frá þeim þáttum sem eru vernandi, samveru með foreldrum og fjölskyldu, stuðning, umhyggju og hlýju, samveru ungmenna með fjölskyldum sínum og mikilvægi þess að foreldrar og forráðafólk viti hvar unglingarnir eru á kvöldin, um helgar og með með hverjum. Þess vegna væri jákvætt að spyrja: Er mamma þín ekki nett pirrandi?“

Að lokum sögðu kennarar við Borgarholtsskóla og nemendur frá heilsuviku skólans. Sýndu þeir myndband af því tilefni.