Viðbragðsáætlun vakni grunur um brot innan félags
Kynferðisbrot líðast ekki innan félagasamtaka Æskulýðsvettvangsins. Allar tilkynningar um kynferðisbrot skal taka alvarlega og er óheimilt að afgreiða ætluð kynferðisbrot innan aðildarfélaga.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins sem var að koma út fyrir félagasamtökin sem mynda hann og aðildarfélög þeirra. Þetta eru verkferlar sem nýta má þegar atvik eða áföll verða sem geta haft áhrif á iðkendur og viðkomandi félag.
UMFÍ er aðili að Æskulýðsvettvanginum ásamt Bandalagi íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Til að tryggja öryggi í samskiptum og draga úr hættu á tilhæfulausum ásökunum er gott að hafa í huga að ábyrgðaraðili og barn undir 18 ára aldri skulu aldrei vera tvö saman í lokuðu rými, ef hjá því verður komist. Þá skal koma í veg fyrir snertingar sem auðvelt er að mistúlka og forðast óeðlileg vinasambönd ábyrgðaraðila og barna og ungmenna. Ef grunur vaknar um að barn eða ungmenni hafi orðið fyrir kynferðisbroti í félagsstarfi skal það tilkynnt til yfirmanns innan félags án tafar. Ef meintur gerandi er ábyrgðaraðili eða yfirmaður í starfi skal hafa beint samband við framkvæmdastjóra aðildarfélags eða fagráð Æskulýðsvettvangsins.
Verkferlarnir eru einfaldir og eiga við í öllum tilvikum, óháð því hvaða ábyrgðaraðila og atvik er um að ræða. Dæmi um atvik sem viðbragðsáætlunin nær til eru agabrot, ávana- og vímuefnanotkun, einelti, kynferðisbrot, alvarleg veikindi, áföll, slys og andlát.
Viðbragðsáætlunin er þríþætt og nær til:
- Atvika sem upp kunna að koma í íþrótta- og/eða æskulýðsstarfi.
- Áfalla sem börn, ungmenni og ábyrgðaraðilar verða fyrir í starfi.
- Áfalla sem börn, ungmenni og ábyrgðaraðilar verða fyrir utan félagsstarfs, en gætu haft áhrif á líðan þeirra og störf innan félagsstarfsins.
Viðbragðsáætlunin nær til aðildarfélaga þeirra samtaka sem mynda Æskulýðsvettvanginn, allra iðkenda í íþrótta- og æskulýðsstarfi þeirra, stjórnenda, yfirmanna, starfsmanna, sjálfboðaliða og annarra ábyrgðaraðila innan félaganna.
Stendur vörð um hagsmuni barna og ungmenna
Hlutverk Æskulýðsvettvangsins er að standa vörð um hagsmuni barna og ungmenna og stuðla að heilbrigðum, uppbyggjandi og vönduðum aðstæðum í æskulýðsstarfi.
Æskulýðsvettvangurinn líður ekki ofbeldi af neinu tagi innan síns starfs og telur mjög mikilvægt að sá grundvallarréttur að fá að vera óáreittur sé virtur.
Viðbragðsáætlunina má nálgast í heild sinni hér.