Fara á efnissvæði
15. október 2017

Vigdís Diljá er matmaður UMFÍ

Vigdís Diljá Óskarsdóttir, þingfulltrúi UÍA, var valin matmaður UMFÍ á 50. sambandsþingi UMFÍ í dag.

Stefán Bogi Sveinsson, þingforseti sambandsþingsins, sagði áður en greint var frá niðurstöðu dómnefndar að Vigdís Diljá hafi vakið athygli gesta þingsins á hátíðarkvöldverði sambandsþingsins á Hótel Hallormsstað á laugardagskvöld. Þar borðaði hún forrétt sinn og sessunautar, ásamt aðalrétti fyrir tvo og eftirrétt líka.

Vigdís Dilja gengur með barni og á hún von á sér í desember. Nafnbótinni matmaður UMFÍ fylgir farandbikar, fagurlega útskorinn askur. Þegar Vigdís Diljá tók við askinum úr hendi Guðríðar Aadnegard, formanns HSK, sagðist hún réttilega þurfa að borða fyrir tvo.

Hefð er fyrir því síðan árið 1979 á þingum UMFÍ að velja matmann UMFÍ. Askurinn sem matmaður fær er afhentur í lok síðustu máltíðar þings UMFÍ þeim þingfulltrúa eða stjórnarmanni UMFÍ sem að mati dómnefndar er þess verðugastur að geyma gripinn til næsta þings. Við valið er m.a. horft til framgöngu í matar og kaffitímum þingsins, beitingu hnífapara, stíls, borðsiða og fleiri þátta. Dómnefnd er skipuð forseta þingsins og fyrrverandi matmanni.

 

Nánar má lesa um matmann sambandsþings UMFÍ og sjá lista yfir fyrri matmenn á vef UMFÍ.