Vigdís Finnbogadóttir 90 ára
Afmælisbarn dagsins er tvímælalaust Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Hún fagnar í dag 90 ára afmæli.
Vigdís hefur ávallt verið dyggur stuðningsmaður UMFÍ og heiðraði í forsetatíð sinni landsmót UMFÍ með nærveru sinni eins og fyrirrennarar hennar í embætti.
Í forsetatíð sinni ræddi hún ávallt vel um UMFÍ og ungmennafélagshreyfinguna. Í ávarpi sínu við setningu Landsmót UMFÍ á Húsavík sagði hún á sólríku sumarkvöldi í júlí árið 1987:
„Það er erfitt að ímynda sér hvað hefði orðið ef að fortíð hefði ekki verið eins og hún er. En þegar eru margir sem hafa hugað að sagnfræði okkar á þessari öld sem að hafa látið sér detta í hug að ekki hefði verið stofnað sjálfstætt lýðveld á Ísland svo snemma sem raunin varð, ef ekki hefði verið til Ungmennafélagshreyfing Íslands.
Þegar við lítum á alla þessa hagsæld sem blasir við okkur Íslendingum í nútímanum er að sjálfsögðu erfitt að setja sér fyrir sjónir að fólk hafi hér í byrjun aldar verið fátækt og átt svo erfitt uppdráttar að það hafi þurft á þessum mikla hugsjónaeldi að halda sem ungmennafélagshreyfingin reyndist þá. Í héruðum víða um land var fólk sem að tengdraðist af þessum eldi, fólk sem hafði varðveitt arð Íslands og var mikið í mun að koma honum áleiðis. Og það er þessu fólki að þakka að við munum enn fortíðina og hyggjum að henni um leið og við hugsum til framtíðar. Þar hefur Ungmennafélag Íslands haft forgöngu í mörgum málum og það er von mín að ungmennafélagshreyfingin megi um langan aldur, meðan Ísland lifir, dafna í þessu landi.“
Vigdís sagði jafnframt í viðtali í Skinfaxa, tímariti UMFÍ, árið 1990 frá kynnum sínum af ungmennafélagshreyfingunni:
„Ég er alin upp af aldamótakynslóðinni, það er að segja gömlu ungmennafélagskynslóðinni, sem vann með miklum metnaði að því að gera Ísland að frjálsu og fullvalda ríki. Hjá henni heyrði ég fyrst um ungmennafélögin, en síðan kynntist ég þessari ágætu hreyfingu þegar ég fór í sveit 10 ára gömul, í Gnúpverjahrepp í Árnessýslu. Þar tók ég þátt í starfsemi ungmennafélagsins, fór með hreppamönnum í útreiðarferðir inn í Þjórsárdal og var áhugasamur áhorfandi á íþróttamótum.“
UMFÍ óskar Vigdísi Finnbogadóttur til hamingju með daginn.