Vilhjálmur Einarsson látinn
Íþróttakappinn Vilhjálmur Einarsson lést á Landspítalanum laugardaginn 28. desember. Hann var 85 ára.
Vilhjálmur fæddist á Hafranesi við Reyðarfjörð 5. júní 1934. Vilhjálmur gekk í barnaskólann á Reyðarfirði, farskólann á Völlum, Gagnfræðaskólann á Seyðisfirði og Alþýðuskólann á Eiðum.
Vilhjálmur er meðal fræknustu íþróttamanna Íslendinga fyrr og síðar og er meðal helstu afreka hans að vera fyrstu Íslendinga til að vinna silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu árið 1956 og var hann fimm sinnum kjörinn íþróttamaður ársins. Vilhjálmur var auk annars formaður Ungmennasambands Borgarfjarðar árin 1967-1970 en þá var en þá var m.a. Sumarhátíðin í Húsafelli sett á laggirnar.
Vilhjálmur er handhafi Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag í þágu íþrótta- og uppeldismála.
Um Vilhjálm
Eftir landspróf frá Eiðum innritaðist Vilhjálmur í Menntaskólann á Akureyri árið 1951 og útskrifaðist sem stúdent frá stærðfræðideild vorið 1954. Haustið 1954 hlaut Vilhjálmur skólastyrk við Dartmouth-háskólann í Bandaríkjunum og útskrifaðist þaðan með BA-próf með áherslu á listasögu. Þá sótti Vilhjálmur framhaldsnám í uppeldis- og kennslufræði við Gautaborgarháskóla 1974-1975 og 1990-1993.
Vilhjálmur lagði mikið af mörkum til íslenskra fræðslu- og æskulýðsmála. Hann var kennari við Héraðsskólann á Laugarvatni, 1957-1958 og skólastjóri við Héraðsskólann á Laugarvatni 1959 og bæði kennari og skólastjóri ýmissa skóla
Vilhjálmur stofnaði og starfrækti m.a. Íþróttaskóla Höskuldar og Vilhjálms ásamt Höskuldi Goða Karlssyni íþróttakennara 1960-1972. Var skólinn starfræktur í Mosfellsdal, Varmalandi og Reykholti í Borgarfirði. Vilhjálmur stofnaði bókaforlagið Að austan sem gaf út tvær bækur: Magisterinn og Silfurmaðurinn.
Vilhjálmur lætur eftir sig eiginkonu, Gerði Unndórsdóttur, og synina Rúnar, Einar, Unnar, Garðar, Hjálmar og Sigmar, auk 19 barnabarna og 14 barnabarnabarna.
UMFÍ sendir fjölskyldu Vilhjálms innilegar samúðarkveðjur.
Litlu Vilhjálmsleikarnir
Vilhjálmur var sem fyrr segir á meðal þekktustu íþróttamanna Íslands. Vilhjálmsvöllur á Egilsstöðum er nefndur eftir honum og má þar sjá minnismerki um stökk hans á Olympíuleikunum í Ástralíu. Myndina af honum taka stökkið á leikunum má sjá hér að neðan.
Á myndinni hér að ofan má sjá Vilhjálm umkringdan hópi barna sem þátt tóku í Litlu Vilhjálmsleikunum á Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fór á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina 2017. Leikarnir eru frjálsíþróttaleikar fyrir börn 10 ára og yngri. Vilhjálmur var viðstaddur setningu Unglingalandsmóts UMFÍ og minntist Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hans í setningarræðu sinni. Vilhjálmur kíkti svo á völlinn og heilsaði upp á þátttakendur Litlu Vilhjálmsleikana og þyrptust börnin að honum.