Fara á efnissvæði
29. desember 2019

Vilhjálmur Einarsson látinn

Íþróttakappinn Vilhjálmur Einarsson lést á Landspítalanum laugardaginn 28. desember. Hann var 85 ára.

Vilhjálmur fæddist á Hafranesi við Reyðarfjörð 5. júní 1934. Vilhjálmur gekk í barnaskólann á Reyðarfirði, farskólann á Völlum, Gagnfræðaskólann á Seyðisfirði og Alþýðuskólann á Eiðum.

Vilhjálmur er meðal fræknustu íþróttamanna Íslendinga fyrr og síðar og er meðal helstu afreka hans að vera fyrstu Íslendinga til að vinna silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu árið 1956 og var hann fimm sinnum kjörinn íþróttamaður ársins. Vilhjálmur var auk annars formaður Ungmennasambands Borgarfjarðar árin 1967-1970 en þá var en þá var m.a. Sum­ar­hátíðin í Húsa­felli sett á lagg­irn­ar.

Vilhjálmur er handhafi Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag í þágu íþrótta- og uppeldismála.

 

Um Vilhjálm

Eftir landspróf frá Eiðum innritaðist Vilhjálmur í Menntaskólann á Akureyri árið 1951 og útskrifaðist sem stúdent frá stærðfræðideild vorið 1954. Haustið 1954 hlaut Vilhjálmur skólastyrk við Dartmouth-háskólann í Bandaríkjunum og útskrifaðist þaðan með BA-próf með áherslu á listasögu. Þá sótti Vilhjálmur framhaldsnám í uppeldis- og kennslufræði við Gautaborgarháskóla 1974-1975 og 1990-1993.

Vilhjálmur lagði mikið af mörkum til íslenskra fræðslu- og æskulýðsmála. Hann var kennari við Héraðsskólann á Laugarvatni, 1957-1958 og skólastjóri við Héraðsskólann á Laugarvatni 1959 og bæði kennari og skólastjóri ýmissa skóla

Vilhjálmur stofnaði og starfrækti m.a. Íþróttaskóla Höskuldar og Vilhjálms ásamt Höskuldi Goða Karlssyni íþróttakennara 1960-1972. Var skólinn starfræktur í Mosfellsdal, Varmalandi og Reykholti í Borgarfirði. Vilhjálmur stofnaði bókaforlagið Að austan sem gaf út tvær bækur: Magisterinn og Silfurmaðurinn.

Vil­hjálm­ur læt­ur eft­ir sig eig­in­konu, Gerði Unn­dórs­dótt­ur, og syn­ina Rún­ar, Ein­ar, Unn­ar, Garðar, Hjálm­ar og Sig­mar, auk 19 barna­barna og 14 barna­barna­barna.

UMFÍ sendir fjölskyldu Vilhjálms innilegar samúðarkveðjur. 

 

Litlu Vilhjálmsleikarnir 

Vilhjálmur var sem fyrr segir á meðal þekktustu íþróttamanna Íslands. Vilhjálmsvöllur á Egilsstöðum er nefndur eftir honum og má þar sjá minnismerki um stökk hans á Olympíuleikunum í Ástralíu. Myndina af honum taka stökkið á leikunum má sjá hér að neðan.

Á myndinni hér að ofan má sjá Vilhjálm umkringdan hópi barna sem þátt tóku í Litlu Vilhjálmsleikunum á Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fór á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina 2017. Leikarnir eru frjálsíþróttaleikar fyrir börn 10 ára og yngri. Vilhjálmur var viðstaddur setningu Unglingalandsmóts UMFÍ og minntist Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hans í setningarræðu sinni. Vilhjálmur kíkti svo á völlinn og heilsaði upp á þátttakendur Litlu Vilhjálmsleikana og þyrptust börnin að honum.