Fara á efnissvæði
14. október 2019

Vill aukið samstarf íþróttahreyfingar og stjórnvalda

„Við þurfum að líta á íþróttir- og æskulýðsstarf sem hluta af uppeldisstofnunum samfélagsins, sem hluta af uppbyggingu nærsamfélagsins og mikilvæga heilsueflingu og menningarstarfsemi og tengja þetta með beinni hætti inn í allt sem við kemur þjónustu við börn og ungmenni á landsvísu,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Ásmundur hélt ávarp við setningu 51. sambandsþings UMFÍ sem fram fór að Laugarbakka í Miðfirði um helgina. Þar sagðist hann stjórnvöld vinna að því þvert á ráðuneyti og stjórnmálaflokka að endurskoða alla þjónustu við börn og ungmenni á Íslandi.

„Eitt af því sem hefur komið upp í þeirri vinnu er að við þurfum að tengja ungmennafélagshreyfinguna og íþróttastarfið miklu sterkar inn í þá vinnu. Við kynntum ákveðna stefnumótun nú í október. Einn af lykilþáttunum var að sterkari teningar þarf við UMFÍ, ÍSÍ og starfið í íþróttahreyfingunni,“ sagði Ásmundur og bætti við að þegar búið væri að kjósa nýja stjórn UMFÍ þá muni hann senda henni fundarboð.

„Ég sé fyrir mér miklu þéttara samstarf inn í þessa vinnu en verið hefur,“ sagði hann og benti jafnframt á að hann vilji setjast sérstaklega niður með UMFÍ til að ræða áherslur þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu tómstundastarfi.

 

Bauð þingmönnum í kökukast

Ásmundur talaði afar vel um starf UMFÍ, Unglingalandsmót UMFÍ, ungmennaráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði og aðra viðburði. Hann rifjaði jafnframt upp þegar hann tók sæti í stjórn Ungmennasambands Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga (UDN), sambandsaðila UMFÍ, þegar hann var 16 ára.

„Ég var að rifja það upp á leiðinni, að margir stíga sín fyrstu skref með þátttöku í starfi á vegum Ungmennafélags Íslands. Fyrsta stjórn sem ég tók sæti í var meðstjórnandi í UDN á sínum tíma. Þá var ég 16 ára gamall. Við vorum að skipuleggja héraðsmót Dalamanna og við vorum að brjóta það upp og vildum hafa eitthvað skemmtikvöld, ég ákvað að hringja í alla þingmenn kjördæmisins og fá þá til þess að koma af því að við ætluðum að hafa kökukast. Ég var búinn að fá bakarann í Búðardal til þess að baka köku með rjóma og ætlaði hann að gera það frítt. Þingmennirnir komu sér allir undan þessu með mjög góðum afsökunum. Ef ég fengi svona erindi í dag hvernig ég myndi koma mér undan því. En síðan hef ég fengið þá ánægju að fylgja dætrum mínum eftir á Unglingalandsmót. Þetta frábæra forvarnarverkefni sem Unglingalandsmótið er, það er til fyrirmyndar. Mér sýnist ég sækja Unglingalandsmót næstu 14 árin,“ sagði hann.  

Ásmundur hélt áfram:

„Það hefur komið skýrt fram að þáttataka í íþrótta- og æskulýðsstarfi getur og hefur margvísleg jákvæð áhrif á líkamlega, andlega og félagslega heilsu þeirra sem taka þátt og skipulagt starf eins og þetta er stöðugt að verða mikilvægari hluti af þeirri þjónustu sem boðið er upp á í hverju samfélagi. Þátttaka í slíku skipulögði starfi ýtir auk þess undir þá tilfinningu að tilheyra og taka þátt. Íþróttir og æskulýðsstarf geta gegnt mikilværgu hlutverki til að virkja einstaklinga.

 

Hrósaði Vertu með

Ásmundur hrósaði sérstaklega verkefninu Vertu með en félagsmálaráðuneytið styrkti það árið 2018. Markmið verkefnisins er að auka þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi með það að markmiði að styrkja þau sem einstaklinga og efla þau til þátttöku í samfélaginu.

„Við erum búin að skoða það í ráðuneytinu vegna aukinnar áherslu á málefni barna hvort við getum ekki stigið enn stærra skref þegar kemur að þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu tómstundastarfi. Það er á dagskránni að taka sérstakan fund með UMFÍ til þess að ræða þær áherslur. Það er gríðarlega mikilvægt að tryggja þátttöku barna og ungmenna í samfélaginu, ekki bara þeim til gagns heldur samfélaginu í heild sinni.

Í embætti mínu sem félagsmálaráðherra hef ég lagt mikla áherslu á það að tryggja fullnægjandi samstarf stjórnvalda við börn og ungmenni í stefnumótun og ákvörðun stjórnvalda. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu fyrr á þessu ári að við ætluðum okkur að móta og forma stefnu um það hvernig allar stærri ákvarðanir hjá stjórnvöldum séu bornar undir börn og ungmenni áður en þær komist til framkvæmda.

Eitt af því sem kom fram í þessum Umræðupartýum og ég hef upplifað í mínum störfum í tengslum við þessa vinnu sem við erum að vinna núna er að ungmenni kalla eftir breytingum í starfi íþrótta- og ungmennafélagi. Að þar sé í boði starfsemi fyrir ungmenni sem hvorki hafa áhuga á afreksmennsku, þau sem aðeins vilja vera með og að meiri áhersla sé lögð á félagslegan áhuga og félagslega virkni og þátttöku heldur en afrek eða árangur.“