Fara á efnissvæði
16. nóvember 2018

Vill fá 50 ára og eldri í luftgítarkeppni í Neskaupstað

 

„Við erum mjög spennt fyrir mótinu,“ segir Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar eftir að hann skrifaði fyrir hönd sveitarfélagsins undir samstarfssamning um að halda Landsmót UMFÍ 50+ sem haldið verður í Neskaupstað í lok júní sumarið 2019. Undir samstarfssamninginn með Karli Óttari skrifuðu Gunnar Gunnarsson, formaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (UÍA) og Haukur Valtýsson, formaður Ungmennafélags Íslands (UMFÍ).

Landsmót UMFÍ 50+ er blanda af íþróttakeppni og annarri keppni, hreyfingu og því að fá fólk á besta aldri til að hafa gaman saman. Mótið hefur farið fram árlega síðan 2011 og er öllum opið sem verða 50 ára á árinu og eldri.

Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, skrifaði undir samningin fyrir hönd ungmennafélagshreyfingarinnar. Hann sagði UMFÍ stefna að því að gera gott mót í Neskaupstað. Unnið verði að því að ná til stærri hóps 50 ára og eldri sem nýtur þess að hreyfa sig eitt og með öðrum. „Mótið er sniðið að hverjum mótsstað eftir því hver aðstaðan er. Ef það er eitthvað sérstakt á hverjum stað þá reynum við að taka mið af því. Það er um að gera og bjóða upp á öðruvísi keppni í Neskaupstað,“ sagði hann.

Karl Óttar, sem jafnframt er formaður nefndar um Landsmót UMFÍ 50+, greip boltann og sagði: „Við reynum að standa okkur. Við höfum rætt um ýmsar óvenjulegar greinar. Við munum klárlega keppa í luftgítarleik!“

 

Á myndinni hér að ofan eru Gunnar Gunnar, formaður UÍA, Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, og Karl Óttar.

Á myndinni hér að neðan má sjá eftirfarandi í röð: 

Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, formaður blakdeildar Þróttar Neskaupstað; Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ; Gunnar Gunnarsson, formaður UÍA; Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ; Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar; Eydís Ásbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar; Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar; Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri UÍA, og Salome Rut Harðardóttir frá Þrótti Neskaupstað.