Fara á efnissvæði
12. júní 2019

Viltu sjá meistarana baka pönnukökur?

Keppni í pönnukökubakstri er með vinsælli greinum á Landsmóti UMFÍ 50+. Þar er ekki bara dæmt eftir því hvernig pönnukökurnar bragðast heldur líka eftir hraða, fjölda, leikni, hreinlæti og útliti. Gríðarlegur fjöldi áhorfenda kemur til að fylgjast með keppninni.

En hvaða pönnukökur eru bestar?

Það fer eftir hverjum og einum. Uppskriftina velur keppandinn sjálfur að því undanskildu að í henni eiga að vera 150 grömm hveiti og að minnsta kosti 1 meðalstórt egg. Lítið þýðir að sitja á fjölskylduuppskrift sem legið hefur ofan í skúffu því keppandi í pönnukökubakstri þarf að leggja fram nákvæma uppskrift áður en keppnin hefst.

Hver keppandi fær vinnuborð með rafmagnshellu, áhald til að hræra deigið með, ausu, skál, mæliílát, sigti, sleikju, vinnudisk, kökufat og borðklút.

Keppendur koma með eigin pönnukökupönnu og pönnukökuspaða. Heimilt er að koma með ausu og áhald til að hræra deigið með. Ekki er þó heimilt að nota rafmagnsþeytara.

 

Hvað er í boði?

Landsmót UMFÍ 50+ er blanda af íþróttakeppni og annarri skemmtun sem fer fram dagana 28.-30. júní. Boðið er upp á fjölda íþróttagreina. Þátttakendur þurfa hvorki að vera skráðir í íþróttafélag né ungmennafélag. Greiða þarf eitt gjald fyrir þátttöku í eins mörgum greinum og viðkomandi vill taka þátt í.

Laugardaginn 29. júní verður skemmtikvöld. Veislustjóri er Jens Garðar Helgason, boðið verður upp á dýrindis kvöldverð og skemmtiatriði. Undir dansi leikur Danshljómsveit Guðmundar R. Gíslasonar. Greiða þarf sérstaklega fyrir skemmtikvöldið. Aðgangseyrir er 5.200 krónur. 

 

Hér getur þú séð allar greinarnar sem eru í boði á mótinu