Viltu vera leiðtogi á vegum NordUng?
Norrænu samtökin NordUng, sem UMFÍ á aðild að, standa fyrir undirbúningsdögum fyrir viðburði ársins í Þórshöfn í Færeyjum um mánaðamótin mars/apríl. Óskað er eftir leiðtogum til að leiða viðburðina.
NordUng stendur síðar á árinu fyrir viðburðum í Cluj í Rúmeníu, Vilnius í Litháen og Tromsö í Noregi. Dagana 29. mars til 2. apríl verður í boði þjálfun fyrir leiðtogana í Þórshöfn í Færeyjum og á netinu.
Vinnubúðirnar eru ætlaðar fólki 20 ára og eldra, bæði aðildarfélögum NordUng á Norðurlöndunum og samstarfsaðilum víðar í Evrópu. Tíu verðandi leiðtogar munu sækja þjálfunina í Þórshöfn, en mun fleiri geta tekið rafrænt.
Gengið er út frá því að þeir einstaklingar sem taka þátt í viðburðinum verði aðalleiðtogar viðburðanna síðar á árinu og þurfa því að mæta á fleiri netfundi síðar.
Í vinnubúðunum verður unnið að nánari útfærslu og skipulagi viðburðanna auk þess sem útbúið verður kynningarefni fyrir þá.
NordUng greiðir ferðir, gistingu og mat á meðan viðburðinum stendur.
Ítarlegri upplýsingar
Nánari upplýsingar um viðburðinn, sem og aðra á vegum NordUng síðar á árinu, má finna á https://www.nordung.org/aktiviteter.
Nánari upplýsingar veitir framkvæmdastjóri NordUng á netfanginu info@nordung.org. Þar er einnig tekið við skráningum fram til 6. febrúar.