Fara á efnissvæði
17. ágúst 2017

Vinnan fyrir UÍA sú skemmtilegasta

Danski fimleikahópurinn Motus sló í gegn á Unglingalandsmóti UMFÍ á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Hópurinn var með sýningu á setningu Unglingalandsmótsins og sýningar á meðan mótinu stóð. Þessir hressu fimmmenningar í fimleikahópnum voru líka með vinnubúðir fyrir mótsgesti.

Það er fyrirtækið Motus ehf sem styrkti komu fimleikahópsins hingað til lands og óku þeir meðal annars á forlátum bíl merktum fyrirtækinu. Samsetningin var einkar skemmtileg.

Sigurður Arnar Jónsson er forstjóri Motus ehf. Hann er mikill ungmennafélagsmaður. Hann er borinn og barnfæddur á Egilsstöðum en á ættir sínar að rekja á Borgarfjörð eystra. Faðir Sigurðar vann mikið fyrir UÍA og vann Sigurður við verkefna- og viðburðastjórnun hjá UÍA á sumrin frá 14 ára aldri og fram yfir háskólanám.

„Vinnan hjá UÍA var á margan hátt það skemmtilegasta sem ég hef gert. Ég byrjaði ungur, fór átta ára gamall með pabba, sem var rafvirki, á sumarhátíðir UÍA, en fór síðan eftir fermingu að smíða fyrir Atlavíkurhátíðina og sumarhátíðir,“ segir Sigurður sem gerðist sumarstarfsmaður UÍA árið 1987 og hætti ekki fyrr en árið 1996. Hann kom að ýmsum verkefnum UÍA, Atlavíkurhátíðum, landsmótum og sumarhátíðum UÍA sem voru miklar íþróttahátíðir á sínum tíma. Sigurður kom meðal annars að hátíðunum þegar þær voru haldnar á Eiðum. Það segir hann hafa verið góðan stað. „Þetta var merkilegur viðburður og góð staðsetning. Eiðar var hlutlaust svæði þar sem ekkert af stóru félögunum var þar á heimavelli. Það hjálpaði til við að gera hátíðina að sameign allra Austfirðinga. En svo var sveitarómantíkin allsráðandi sem næst aldrei þegar hátíð er haldin inni í bæ. Meirihluta þeirra Austfirðinga sem ég þekki í dag kynntist ég í tjaldbúðum unglinga á sumarhátíðum UÍA,“ segir hann.

Sigurður kom að fjölmörgum öðrum verkefnum, tók meðal annars að sér fjármögnun á útgáfu Snæfells fyrir UÍA. Veturinn notaði hann til að selja auglýsingar í blaðið samhliða háskólanámi. Sigurður segir störf fyrir ungmennafélög oft vanmetin. Það eigi þau ekki að vera. „Mín skoðun er sú að það að vinna fyrir íþróttahreyfinguna sé gríðarlega góður skóli fyrir atvinnulífið. Fólk stendur og fellur með því sem það gerir. Það er því pressa á að fólk standi sig,“ segir hann.

 

Greinin birtist í 3. tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Hægt er að nálgast blaðið hér.

Hér má sjá nokkrar myndir af fimmmenningunum í fimleikahópnum Motus.