Fara á efnissvæði
03. apríl 2020

Willum: Mikilvægt að verja íþróttastarfið

„Íþróttahreyfingin er í erfiðri stöðu eins og fjölmargir aðrir við þessar aðstæður og mikilvægt að verja starfið þar og störfin innan hennar. Við hugum að því með öllum ráðum. Mikilvægt núna er að íþróttahreyfingin vinni með þau úrræði sem þegar standa til boða og svo metum við framhaldið jöfnum höndum, svo sem hvaða viðbótarstuðning þarf til,“ segir Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis.

Alþingi samþykkti á dögunum sérstakt tímabundið fjárfestingarátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfari heimsfaraldurs kórónaveirunnar. Í átakinu voru sérstaklega merktar 750 milljónir króna. Í meðferð fjárlaganefndar var framlagið hækkað um 250 milljónir króna og er því einn milljarður króna í málaflokknum.

Málaflokkurinn er á borði mennta- og menningarmálaráðherra sem sér um skiptingu framlagsins. Nú þegar hefur vinnuhópur tekið til við að meta stöðu íþróttahreyfingarinnar og móta aðferðafræði við dreifingu framlagsins. UMFÍ leggur vinnuhópnum lið.

Willum segir ekki búið að ákveða hver skiptingin verður en leggur áherslu á að gæta verði jafnræðis og réttlátrar dreifingar.

Launakostnaður er helsti útgjaldaliður íþróttafélaga og segist Willum hafa hvatt íþróttafélög til að nýta sér hlutagreiðsluúrræði stjórnvalda, þar sem það gengur upp.  

„Við þurfum að sjá hvað þetta framlag nær langt fyrir íþróttahreyfinguna og hvað hlutastarfaleiðin grípur mikið. Þegar byrjað verður að vinda ofan af samkomubanninu í byrjun maí þá sjáum við betur hver staðan er og vonandi fyrr, hvort þetta dugar til eða bæta þarf í,“ segir hann.