Fara á efnissvæði

Verkefni

Aukin þátttaka

Aukin þátttaka barna og ungmenna af erlendum uppruna

UMFÍ vekur athygli á efni sem hefur það markmið að auka þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþróttastarfi. Markhópur efnisins eru foreldrar barna og ungmenna af erlendum uppruna.

Í efninu er að finna hagnýtar upplýsingar um starfsemi íþrótta- og ungmennafélaga landsins. Sem dæmi má nefna kosti þess að hreyfa sig, upplýsingar um æfingagjöld og frístundastyrki og mikilvægi þátttöku foreldra svo dæmi séu nefnd.

Efnið er aðgengilegt á íslensku, ensku, pólsku, tælensku, litháísku, filippseysku, víetnömsku, arabísku, spænsku og úkraínsku.

Efnið er samstarfsverkefni UMFÍ og ÍSÍ.

Sport for all!

  • The Icelandic Youth Association (UMFÍ) and The National Olympic and Sport Association (ÍSÍ) has published a new brochure with information of the operations of the youth and sports organizations in Iceland. The brochure contains information about organised sporting activities, the benefits of exercise, participation fees at sports clubs and leisure subsidieses and parental participation. The brochure and poster is accessible in ten different language: Icelandic, english, polish, lithuanian, filipino, tai, vietnamese, arabic, spanish and ukrainian.

  • Islandzkie Stowarzyszenie Młodzieży (UMFÍ) i Krajowe Stowarzyszenie Olimpijskie i Sportowe (ÍSÍ) opublikowały nową broszurę zawierającą informacje o działaniach organizacji młodzieżowych i sportowych w Islandii. Broszura zawiera informacje o zorganizowanych zajęciach sportowych, korzyściach płynących z ćwiczeń, opłatach za uczestnictwo w klubach sportowych i formach spędzania wolnego czasu oraz uczestnictwie rodziców.

    Broszura i plakat są dostępne w różnych językach: islandzkim, angielskim, polskim, litewskim, filipińskim, tajski, wietnamski, arabski, hiszpański i ukraiński.

Styrkþegar

UMFÍ og ÍSÍ hafa í tvígang veitt styrki til íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar til þess að fara af stað með verkefni til þess að auka þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna. Haustið 2018 hlutu fimm verkefni styrk að upphæð 180.000kr. og haustið 2022 hlutu fjögur félög styrk að upphæð 250.000kr. Hér fyrir neðan er hægt að kynna sér verkefnin. 

Upplýsingar um verkefni

  • Dansfélagið Bíldshöfði hlaut styrk fyrir aukinni danskennslu fyrir börn og ungmenni af erlendum uppruna í Breiðholti. Allir nemendur í 1. – 3. bekk í Fellaskóla fengu upplýsingar um verkefnið. Sendur var tölvupóstur á foreldra til kynningar. Verkefnið gekk að mestu frábærlega. Mikil almenn ánægja var hjá þátttakendum, kennurum og stjórnendum í Fellaskóla. Þátttakendur lærðu grunnsporin í samkvæmisdönsum eins og Cha cha cha og enskum valsi. Einnig var farið í létta dansleiki. Þátttakendur lærðu að hlusta á tónlist og takt og læra að vera samtaka með því að dansa saman.  

    Við gerðum þau mistök að bjóða þátttakendum og foreldrum upp á að taka þátt í danssýningu á vegum DSÍ en þegar enginn mætti úr Fellaskóla þá áttuðum við okkur á því að best hefði verið að vera fyrst með danssýningu í skólanum og síðan athuga hvort foreldrar og börn hefðu áhuga á frekari danssýningum. Almennt vekja danssýningar hjá byrjendum mikla lukku og þá helst hjá foreldrum.

  • Héraðssamband Vestfirðinga (HSV) hlaut styrk fyrir kynningu á starfsemi félagsins á vordögum grunnskólans með aðstoð túlka, þýðingu á stundatöflum og tékklistum fyrir foreldra barna af erlendum uppruna.

    Verkefnið stendur enn yfir og er mun umfangsmeira en gert var ráð fyrir. Unnið er að því að taka saman tölur fyrir HSV um hvernig staðan er raunverulega, hvernig þátttaka barna og ungmenna er í raun og veru.

    Næstu skref eru eftirfarandi:

    • Þýða æfingatöflur og upplýsingar yfir á pólsku, ensku og taílensku og hafa aðgengilegar á heimasíðu HSV.
    • Koma á auknu samstarfi og samvinnu milli grunnskólans og HSV. Þannig að fulltrúar frá HSV fái tækifæri til þess að koma í heimsókn og vera á göngunum skólans þegar foreldraviðtöl fara fram. Ná þannig að eiga samtal við foreldra beint með aðstoð túlks.
    • Koma upplýsingum um framboð á íþróttastarfi inn á teymisfundi í skólanum.
      Mynda móttökuáætlun í samvinnu við skólann. Grípa nýja nemendur strax og segja frá íþróttastarfi sem er í boði í bæjarfélaginu.
    • Útbúa íþrótta- og tómstundabækling á fleiri tungumálum og dreifa til allra heimila.

    Að auki er unnið að því að kynna og upplýsa alla þjálfara innan HSV um þessa vinnu svo allir séu samstíga. Skólinn ætlar að taka saman fjölda barna af erlendum uppruna sem stunda nú þegar skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf, þannig að hægt sé að taka út hvort verkefnið skili árangri.

    Það sem er nú þegar lokið er að sérstakur tungumálaflipi er orðinn aðgengilegur á heimasíðu HSV. Einnig er búið að þýða efni um starfsemi íþróttaskólans og kynna fyrir foreldrum barna sem voru að hefja skólagöngu. Mikil ánægja var með kynninguna og er hún komin til með að vera framvegis.   

  • Skautafélag Akureyrar hlaut styrk fyrir gerð auglýsingar fyrir samfélagsmiðla þar sem iðkendur félagsins af erlendum uppruna hvetja önnur börn af erlendum uppruna til þátttöku í íþróttum.

    Myndbandið er tilbúið að komið í dreifingu á samfélagsmiðlum. 

    Aftur á móti þá hefur skautahöllin verið lokuð í um ár vegna viðhalds og því ekki verið hægt að standa fyrir hefðbundum æfingum. Starfið er nú loks að komast aftur í gang og hefur félagið m.a. tekið á móti fjölskyldum frá Úkraínu. Félagið stefnir á uppfærslu og áframhaldandi birtingu og kynningu á myndbandinu á komandi vikum og mánuðum.

  • Íbúar á Snæfellsnesi búa í fjölmenningarlegu samfélagi þar sem íbúar koma frá mörgum löndum og er mikill vilji til þess innan svæðisins að allir taki þátt í samfélaginu. HSH fór af stað í verkefni núna í haust til þess að reyna að kynna fyrir erlendum börnum og unglingum hvað er í boði innan svæðis HSH og að allir eru velkomnir að stunda íþróttir og vera með.

    HSH fékk styrk frá Ungmennafélagi Íslands og Svæðisgarðinum Snæfellsnesi fyrir verkefnið til þess að kynna fyrir og fjölga erlendum börnum í íþróttastarfi á Snæfellsnesi. Hluti af því var að kynna starfsemi HSH á fjölmenningardeginum sem fram fór í Frystiklefanum á Rifi 20. okt. s.l. Það voru þau Matthías Daði Gunnarsson, Kristófer Máni Atlason og Aldís Guðlaugsdóttir ásamt framkvæmdastjóra HSH sem kynntu fyrir gestum hátíðarinnar hvað HSH stendur fyrir. HSH var með hugmyndakassa fyrir börn og unglinga á fjölmenningarhátíðinni þar sem þau gátu komið með sínar óskir og hugmyndir um íþróttastarf á Snæfellsnesi.

    Gaman er að segja frá því að fram komu margar skemmtilegar hugmyndir en flestir sem svöruðu vildu fá að stunda skák, fimleika og blak. Þessum hugmyndum var safnað saman og send á ungmennafélögin á Snæfellsensi og vonandi nýta þau sér eitthvað af þessu. Tveir nemendur úr Grunnskóla Snæfellsbæjar, einn frá Íslandi og einn frá Póllandi, héldu stutt erindi á hátíðinni um það af hverju þeir stunda íþróttir og hvaða kosti þeir telja að íþróttatiðkun hafi fyrir krakka. HSH hafði látið útbúa og merkja fjölnota poka sem innihélt kynningarbækling fyrir félögin innan HSH og stundatöflur UMF Víkings/Reynis, UMF Grundarfjarðar og UMF Snæfells. Hægt var að fá bæklingana á íslensku, ensku og pólsku. Þessum pokum var svo einnig dreift til allra grunnskólabarna í Grunnskóla Snæfellsbæjar, Grunnskóla Grundarfjarðar og Grunnskóla Stykkishólms.

    Ungmennafélögin telja að ekki hafi orðið mikil aukning á börnum af erlendum uppruna sem koma í íþróttir enn sem komið er. Allir eru sammála um það að þetta verkefni var stór liður í því að kynna félögin fyrir öllum börnum í grunnskólunum á Snæfellsnesi og það er nokkuð ljóst að það ætti ekki að fara fram hjá neinum hvað er í boði hjá félögunum.

    Formaður Ungmennafélagsins í Staðarsveit sagði: „Við erum sannfærð um að þátttaka í þessu verkefni hafi skilað okkur dýrmætum árangri. Það mikilvægasta er betri kynning á þeim viðburðum sem félagið stendur fyrir, meðal  nýbúa á starfssvæði okkar, þó að margir viðburðir séu árvissir og vel þekktir hjá rótgrónum íbúum er mikilvægt að kynna þá sérstaklega fyrir nýju fólki og beinlínis bjóða þeim persónulega að vera með. Þetta atriði hefur væntanlega nýst best þeim sem hafa flutt hingað á allra síðustu árum.

    Verkefnið hefur líka skilað bættri samvinnu á Snæfellsnesi, það er mikilvægt að vita hvað er í boði fyrir börn og ungmenni og hvetjandi að vera beinlínis boðið að “vera með”. Þetta verkefni er bara byrjun á því átaki sem félögin standa frammi fyrir í því að fjölga erlendum börnum í skipulagt íþróttastarf. UMF Víkingur/Reynir horfir björtum augum á það að bæjarstjórn Snæfellsbæjar byrjaði um áramót að bjóða upp á frístundastyrk með hverju barni sem stundar skipulagt tómstunda- og íþróttastarf og vonar að það komi til með að fjölga erlendum iðkendum. Þetta tekur verkefni tíma og nú er mikilvægt að halda áfram með þetta og eins og stjórn Ungmennafélagsins í Grundarfirði kom inn á þá er þörf á því að félögin minni á sig og komi bæklingunum til nýrra nemenda.

  • Foreldrahandbók
    Við höfum útbúið foreldrahandbók með upplýsingum um:

    • Hvernig þú skráir barnið þitt í félagið
    • Æfingagjöld
    • Frístundastyrk
    • Æfingar
    • Leiki
    • Fatnað
    • Keppnisferðir
    • Slys
    • Fjáraflanir

    Foreldrastarf
    Eftir að hafa gert könnun á því hvaðan flestir íbúar af erlendum uppruna koma þá fórum við þá leið að þýða handbókina yfir á tvö tungumál, ensku og pólsku. Handbækurnar eru aðgengilegar á heimasíðu félagsins: http://ibvsport.is/page/handbok-fyrir-foreldra.

    Vinnustaðafundir
    Við leituðum til sjö vinnustaða í bænum sem eru með starfsmenn af erlendum uppruna um að fá að vera með kynningu á ÍBV, og tóku þau öll vel í það. Starfsmenn minni fyrirtækjanna voru fáir fjölskyldufólk og var því ákveðið að bjóða þeim að koma á kynningu í stærri fyrirtækjunum.

    Við fengum tvo túlka til að koma með okkur á fundina, annan enskumælandi og hinn rússnesk- úkraínsk- og pólskumælandi. Við fórum yfir efni handbókarinnar og lögðum mikla áherslu að foreldrar tækju þátt í iðkun barna sinna með því að mæta einstaka sinnum á æfingar og í leiki, taka þátt í fjáröflunum og fara með í keppnisferðir.
    Fyrir þá sem ekki voru með fjölskyldu þá hvöttum við þau til að mæta á leiki hjá meistaraflokkunum okkar í handknattleik og knattspyrnu ásamt því að benda þeim á ýmis sjálfboðaliðastörf í kringum félagið sem gætu hjálpað þeim að komast betur inn í samfélagið.

    Frístundastyrkur
    Við höfðum samband við Vestmannaeyjabæ um að þeir myndu þýða upplýsingar og  umsóknareyðublað fyrir frístundastyrk yfir á fleiri tungumál og brugðust þeir hratt við og þýddu hana yfir á ensku og pólsku. http://vestmannaeyjar.is/is/page/fristundastyrkur.

    Foreldrar taka að sér fjölskyldu
    Þar sem mikið álag er oft á þjálfurum og þeir ná ekki alltaf að upplýsa foreldra af erlendum uppruna um það sem er í gangi, varðandi fjáraflanir og keppnisferðir. Þá fengum við foreldra í einum flokk til að taka að sér fjölskyldu af erlendum uppruna og sjá um að upplýsa þau um allt sem er í gangi í flokknum.

    Tengiliður innan félagsins
    Við erum komin með tengilið innan félagsins sem talar rússnesku, úkraínsku og ensku. Sem foreldrar geta haft samband við ef þeim vantar aðstoð með eitthvað eða fá upplýsingar.

    Niðurstaða
    Vinnustaðafundirnir gengu misvel. Við lentum í því að foreldrar barna sem eru að æfa hjá okkur fannst við vera að skamma þau þegar við fórum að tala um að fylgja börnunum í keppnisferðir þar sem þau hafa aldrei farið með. Við teljum okkur hafa náð að leiðrétta það að við teldum æskilegt að foreldrar fylgdust með tómstundum barna sinna og fylgdu þeim í einstaka ferðir. En heilt yfir var vel tekið á móti okkur og fólk áhugasamt um félagið og starfsemina.

    Foreldrarnir sem tóku að sér fjölskyldu segja að þetta sé búið að ganga mjög vel, þau láta fjölskylduna vita ef fjáraflanir eru í gangi og hvað þau þurfa að gera, eins með keppnisferðir, foreldrafundi ofl.

    Tengiliðurinn innan félagsins hefur lítið verið notaður af foreldrum barna af erlendum uppruna.

    Ekki hefur orðið fjölgun á iðkendum barna af erlendum uppruna, en samskipti við foreldra þeirra sem eru að æfa hjá okkur hafa batnað og við vonumst til þess að þetta átak eigi eftir að skila okkur fleiri iðkendum þegar líður á árið.

    Framhaldið
    Framundan eru foreldrafundir hjá iðkendum í knattspyrnu, þar ætlum við að óska eftir fleiri foreldrum til að taka að sér fjölskyldu af erlendum uppruna og leiðbeina þeim í öllu því sem kemur að iðkun barna þeirra. Við erum mjög ánægð hvernig þetta tókst til hjá okkur og myndum vilja hafa foreldra í hverjum árgangi sem tækju að sér að leiðbeina fjölskyldu af erlendum uppruna. Einnig ætlum við að þýða helstu punktana sem fram koma á fundunum til að halda foreldrum af erlendum uppruna vel upplýstum.

    Foreldrafundadagur Grunnskólans í Vestmanneyjum er 19. febrúar nk. En þá ætlum við að vera með útprentuð eintök af handbókinni ásamt umsóknareyðublöðum fyrir frístundastyrk og æfingatöflu, sem kennararnir geta farið yfir og afhent foreldrum af erlendum uppruna.

    Við eigum einn vinnustaðafund eftir þar sem unnið var á vöktum í fyrirtækinu fyrir jól og erfitt að ná öllum saman á einn fund, hann er áætlaður í lok janúar.

  • Í styrkumsókninni var lagt var upp með að þýða bæklinga og auglýsingar yfir á nokkur tungumál og reyna að efla þátttöku foreldra í starfi deildarinnar.

    Við höfum þýtt upplýsingabækling fyrir foreldra yfir á pólsku og ensku.  Einnig höfum við þýtt nokkrar auglýsingar um æfingar sem hægt er að stunda hjá Taekwondo deild Keflavíkur yfir á nokkur tungumál og munum halda því starfi áfram.

    Það hefur ekki gengið vel að virkja foreldra enn sem komið er.  En við eigum svo sem eftir að leggja meiri áherslu á það, fyrsta skrefið var að útbúa þennan bækling fyrir foreldra svo þeir vissu meira um taekwondo og það starf sem fram fer hjá Taekwondo deild Keflavíkur.  Bæklingarnir eru hérna á síðunni okkar og munu einnig liggja frammi við í Bardagahöllinni okkar að Smiðjuvöllum 5, Reykjanesbæ.

    Eftir að við fengum styrkinn kom upp hugmynd um að kaupa eða prenta þjóðfána þeirra iðkenda sem æfa hjá deildinni en það eru iðkendur frá 16 þjóðlöndum að æfa hjá okkur.  Fánarnir eru nýkomnir úr prentun og það á eftir að hengja þá upp.

    Iðkendur með erlent nafn eru um 20% iðkenda.

  • Í haust ákvað Valur í samstarfi við Þjónustumiðstöð Vestubæjar, Miðborgar og Hlíða að taka þátt í verkefninu TUFF Ísland, þar sem að þeim börnum (óháð uppruna) sem aldrei hafa æft íþróttir hjá félaginu áður fái að koma og æfa frítt í þrjá mánuði og geti prófað allar íþróttagreinar.

    Ástæðan fyrir að ákveðið var að fara í þetta verkefni var að starfsmenn þjónustumiðstöðvarinnar höfuð sérstakar áhyggjur af stöðu barna í Austurbæjarskóla með tilliti til þátttöku í skipulögðu frístundastarfi og nýtingu frístundastyrksins. Skólinn er mótttökuskóli og tekur því við stórum hópi barna frá þjónustumiðstöðinni ásamt því að þar er stórt samfélag barna af Pólskum uppruna. Verkefnið átti þó að miða að aukinni þátttöku og kynningu á félaginu í öllum skólum í hverfinu ásamt öðrum stofnunum eins og frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum, Pólska skólanum og fleira.

    Samstarfið við TUFF gekk ekki eins og vel og vonast var eftir. Það voru ýmis samskipta- og skipulagsvandamál sem gerðu það að verkum að kynningum og fundum var oft frestað og dróst því áætlunina sem upphaflega var sett upp á langinn. Þetta má einnig rekja til þess að samstarfið við stjórnendur Austurbæjarskóla gekk erfiðlega og ákveðinn mótþrói gagnvart innkomu íþróttafélags í skólann með kynningu, jafnvel þó að markmiðið væri að auka þátttöku barna af erlendum uppruna. Það hafði einnig áhrif að innkoma Reykjavíkurborgar í þátttöku TUFF Ísland hefur ekki verið staðfest og því ekki fengist fjármagn eins og búist var við til að keyra verkefnið áfram. Því hefur Barna- og unglingasvið Vals sjálft þurft að fjármagna aðkomu TUFF sem er ekki í samræmi við starf þeirra í öðrum bæjar- og íþróttafélögum.

    Valur hélt kynningu á starfi félagsins fyrir nemendur í Austurbæjarskóla í byrjun desember. Þessi gífurlega áhersla á þann skóla gerði þó að verkum að nemendakynningum í öðrum skólum var frestað. Það hefur strax komið aukinn áhugi og skráningar frá Austurbæjarskóla og vonumst við eftir að þeim eigi eftir að fjölga þar sem að starfið á vorönn er að hefjast. Búið er að kynna verkefnið fyrir skólastjórnendum hinna hverfisskólana og kennurum í Hlíðaskóla. Einnig var haldið námskeið fyrir þjálfara félagsins þar sem farið var yfir mikilvægi verkefnisins og var mikil ánægja meðal þjálfara með framtakið.

    Eins og staðan er núna erum við ekki viss um hvort við höldum áfram með verkefnið undir formerkjum TUFF eða hvort við leggjum meiri áherslu á samstarf við þjónustumiðstöðina og tengiliði skólanna, án aðkomu aðila frá TUFF. Eftir að þetta verkefni hófst í haust hefur samstarfið milli Vals og þjónustumiðstöðvar styrkst og opnað á samskiptaleiðir þannig að starfsmenn þaðan eru óhræddari við að vísa börnum beint til Vals. Við höfum síðan í samvinnu fundið út bestu leiðir til að aðstoða þau við frístundastyrki, greiðslu æfingagjalda, búninga og fleira.

    Verkefnið hefur skilað okkur tengiliði í skólana og það er okkar von að þau beini líka börnum til okkar og við séum tilbúin að aðstoða þau með sama hætti og þegar þau koma beint frá þjónustumiðstöðinni.

    Markmiðið er að Knattspyrnufélagið Valur haldi áfram að sinna verkefnum um aukna þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í starfi félagsins, en muni þó endurskoða með hvaða hætti.

  • Þann 21. september sl. var Íþróttabandalagi Akraness (ÍA) veittur styrkur frá ÍSÍ og UMFÍ til að auka þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþróttastarfi. Styrkurinn var veittur á grundvelli umsóknar frá ÍA sem innihélt hugmyndafræðina á bak við verkefnið og aðgerðaráætlun. Verkefnið var unnið í samstarfi við frístundamiðstöðina Þorpið á Akranesi og grunnskóla Akraneskaupstaðar, Grundaskóla og Brekkubæjarskóla.

    Meginþema verkefnisins var að koma á tengslum við nemendur og foreldra af erlendum uppruna og nýta til þess viðtalsdaga grunnskólanna þar sem auðvelt er að ná til alls þessa hóps. Á sama tíma væru aðildarfélög ÍA tilbúin með aðgengilegar upplýsingar og prufutíma fyrir þennan hóp til að auðvelda honum að hefja þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi.

    Undirbúningur
    Ákveðið hafði verið að verkefnið snéri að því að ná til nemenda í 3. og 4. bekk beggja grunnskólanna. Lang flestir af þeim sem eru að erlendum uppruna á Akranesi eru af pólskum ættum.

    Byrjað var á því að hafa samband við skólastjóra beggja grunnskólanna og óska eftir samstarfi um verkefnið og voru þeir tilbúnir til þess og fannst spennandi að fá að taka þátt í þessu verkefni. Síðan var haft samband við umsjónarkennara 3. og 4. bekkja grunnskólanna. Þeim var send kynning á verkefninu og svo var fundað með þeim í kjölfarið um framkvæmd verkefnisins.

    Verkefnið var einnig kynnt fyrir öllum formönnum 19 aðildarfélaga ÍA og óskað eftir nánu samstarfi við þá og var það auðsótt mál. Einnig var óskað eftir því að þau aðildarfélög sem bjóða upp á íþróttaæfingar fyrir þennan hóp tækju saman upplýsingar um hverja íþróttagrein á staðlað blað, bæði á íslensku og ensku.

    Óskað var eftir því að þjálfarar myndu taka sérstaklega vel á móti nýjum iðkendum og veita þeim og foreldrum þeirra sérstaka athygli. Mikilvægt væri að fara sérstaklega yfir með þeim út á hvað starfið gengur og kynna fyrir þeim fjáraflanir og mótahald en menning okkar í þeim efnum getur verið framandi fyrir fólki frá öðrum löndum.

    Haft var samband við foreldra og forráðamenn í gegnum umsjónarkennara og verkefnið kynnt fyrir þeim en þeir einnig látnir vita af því að fulltrúar frá ÍA og frístundamiðstöðinni Þorpinu yrðu til staðar á viðtalsdegi sem fram fór í báðum skólum í nóvember. Útbúin var stutt könnun um þátttöku í íþróttum, tónlistarnámi eða skipulögðu tómstundastarfi og ákveðið að biðja foreldra um að svara henni með umsjónarkennara á viðtalsdegi og afhenda fulltrúa ÍA að því loknu þar sem möguleiki yrði á að spjalla aðeins um það sem þar kæmi fram.

    Að síðustu voru upplýsingarsíður um Nóra og almennar upplýsingar um ÍA og aðildarfélög þess á heimasíðu ÍA, ia.is, þýddar á pólsku og ensku. Sjá: http://ia.is/almennt-um-ia/idkendasida-ia/ og https://ia.is/almennt-um-ia/about-ia/.

    Framkvæmd
    Á viðtalsdögum grunnskólanna voru Hildur Karen frá ÍA og fulltrúi frá frístundamiðstöðinni Þorpinu í skólunum frá kl. 8:00 – 16:30, einn dag í hvorum skóla. Þá daga mæta foreldrar og nemendur í u.þ.b. 20 – 30 mínútna viðtal til umsjónarkennara þar sem áhersla er lögð á líðan og árangur í námi. Í lok viðtals fengu allir foreldrar og nemendur 3. og 4. bekkja afhent könnunarblað sem þau áttu að skila til okkar en við vorum staðsett nálægt skólastofum nemenda þar sem viðtölin fóru fram. Þar voru við með upplýsingablöð frá hverju íþróttafélagi sem bjóða upp á æfingar fyrir þennan aldurshóp og upplýsingar um frístundamiðstöðina Þorpið. Við gáfum öllum sem vildu ÍA tattú og penna merkta ÍA ásamt því að kynna bæklinginn ”Vertu með” frá ÍSÍ og UMFÍ. Við vorum einnig með fartölvu og kynntum fyrir þeim sem vildu heimasíðu ÍA, Nóra (skráningarkerfi íþróttafélaganna) og hvar væri að finna upplýsingar um þær íþróttagreinar sem eru í boði hjá okkur á Akranesi auk upplýsinga um Þorpið.

    Það að nemendur og foreldrar þurftu að skila til okkar könnunarblaðinu skapaði oft góðan grundvöllur fyrir spjalli um þær íþróttagreinar og tómstundir sem viðkomandi er að æfa eða langar að kynna sér. Þetta atriði var mjög mikilvægt því það stuðlaði að því að allir fengju kynningu og upplýsingar um það sem er í boði hjá okkur á Skaganum í íþróttum og tómstundum hvort sem þeir væru af erlendum uppruna eða ekki. Mörg systkini nemenda í 3. og 4. bekk komu einnig að borðinu hjá okkur og fengu upplýsingar um íþróttir og tómstundir á Akranesi.

    Í Brekkubæjarskóla fóru fram um 10 túlkaviðtöl með nemendum og foreldrum af erlendum uppruna á öðrum degi en önnur viðtöl fóru fram. Fyrir þau viðtöl var Hildur Karen búin að hitta túlkinn sem aðstoðaði umsjónarkennara og kynnti verkefnið fyrir honum. Í hverju túlkaviðtali fékk foreldri bæklinginn frá ÍSÍ um íþróttir og var einnig sagt frá því hvaða íþróttir væri hægt að stunda hjá ÍA. Þegar þessir foreldrar og nemendur komu út úr viðtalinu komu þeir allir að borðinu hjá Hildi Karen þar sem hún kynnti Nóra fyrir þeim sem vildu.

    Eftirfylgni
    Í janúarbyrjun var sent bréf á þremur tungumálum (Fylgiskjal F) til allra nemenda og foreldra í 3. og 4. bekk með stuttri kynningu á þeim íþróttagreinum sem hægt er að stunda og um leið hvatningu til að hafa samband við ÍA ef frekari upplýsingar vantar, t.d. varðandi skráningu í Nóra.

    Niðurstaða
    Að loknum viðtölum tókum við saman upplýsingar úr könnuninni sem skilað var til okkar. Á vormánuðum verður svo kannað hvort að fleiri iðkendur af erlendum uppruna hafi skilað sér í íþróttir og tómstundir og/eða dregið hafi úr brottfalli þeirra úr þessu skipulagða starfi. Sú könnun mun verða framkvæmd í samstarfi við umsjónarkennara í 3. og 4. bekk. Þannig getum við kannað hvort að þessi íhlutun hafi haft einhver áhrif á þátttöku og brottfall nemenda í 3. og 4. bekk í íþróttum og tómstundum á Akranesi.

    Mikil ánægja var með að hafa fulltrúa frá ÍA á staðnum á viðtalsdögum og þegar túlkaviðtöl fara fram og kom sú ánægja fram frá foreldrum, skólastjórnendum og forsvarsmönnum íþróttahreyfingarinnar. Því hefur verið ákveðið að halda þessu áfram þannig að á hverju hausti þegar viðtalsdagar fara fram í grunnskólum bæjarins muni fulltrúi frá íþróttahreyfingunni vera á staðnum og að aðstoða og veita upplýsingar um íþróttir á Akranesi.

    Hér eftir munu öll aðildarfélög ÍA taka saman á eitt blað upplýsingar um hvert félag, tímatöflu, verð og upplýsingar um tengilið. Því miður hafa þessar upplýsingar ekki verið samræmdar og nógu skýrar og einfaldar hjá okkur.

    Verkefnið leiddi einnig í ljós að hægt er að gera mun betur varðandi þýðingar á önnur tungumál á heimasíðu ÍA og mun áhersla vera lögð á að bæta þar enn frekar úr. Í tengslum við verkefnið komst ÍA í gott samband við þýðendur á ensku og pólsku og munum því samstarfi verða haldið áfram.

    Við hjá ÍA erum afar þakklát fyrir þann styrk sem við hlutum frá ÍSÍ og UMFÍ en hann ýtti við okkur varðandi þarfir fólks af erlendum uppruna og undirbúningur og framkvæmd verkefnisins leiddi í ljós ýmislegt sem hægt er að gera betur.

    Verkefnið sýndi m.a. fram á mikilvægi þess að:

    • upplýsingar séu aðgengilegar og ljóst sé hvert eigi að leita eftir upplýsingum um íþrótta- og tómstundastarf.
    • setja andlit á þá sem eru í forsvari fyrir íþróttahreyfinguna, það auðveldar fólki að hafa samband og leita aðstoðar.
    • tengja sama skóla- og íþróttasamfélag en þar eru umsjónarkennarar og forsvarsmenn íþrótta- og tómstundastarfs lykilaðilar.
    • fá foreldra til að taka virkan þátt í íþrótta- og tómstundastarfi barna sinna og þar með forvarnarstarfi.


    Við munum nýta þessar niðurstöður og vísbendingar til að bæta enn íþrótta- og tómstundastarf á Akranesi enda hefur verið sýnt fram á að einn af helstu verndandi þáttum í lífi barna er þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi í þar höfum við mikinn metnað.