Fara á efnissvæði

Önnur námskeið

Æskulýðsvettvangurinn hefur unnið að þróun verkfæra sem íþrótta- og æskulýðsfélög og aðrir sem starfa með börnum og ungmennum eru hvött til þess að nýta sér til þess að stuðla að inngildandi félagi og starfsemi. Fjöldi námskeiða er í boði á vegum Æskulýðsvettvangsins. 

 

Verndum þau: 

Æskulýðsvettvangurinn hefur frá árinu 2010 staðið fyrir námskeiðinu Verndum þau. Námskeiðið er byggt á efni samnefndrar bókar og fjallar um hvernig bregðast á við grun um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum og ungmennum. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem starfa með börnum og ungmennum og öðrum áhugasömum.

Í bókinni er fjallað um alla þessa þætti á aðgengilegan hátt og lesendur eru upplýstir um eðli og birtingarmyndir ofbeldis og vanrækslu, auk þess sem gerð er grein fyrir ferli mála af þessu tagi hjá barnaverndaryfirvöldum og innan dómskerfisins.

Ítarlegri upplýsingar um námskeiðið Verndum þau

 

Einelti í íþrótta- og æskulýðsstarfi:

Einelti er ekki liðið innan þeirra félagasamtaka sem mynda Æskulýðsvettvanginn og aðildarfélaga þeirra. Mikilvægt er að öllum líði vel í leik og starfi og að sá grundvallarréttur að fá að vera óáreittur sé virtur. Það er mikilvægt að öll þau sem starfa með börnum og ungmennum séu meðvituð um ábyrgð sínar og skyldur.

Til þess að hægt sé að koma í veg fyrir einelti og aðra óæskilega hegðun í íþrótta- og æskulýðsstarfi og tryggja farsæla úrlausn mála þegar samskiptavandi eða einelti kemur upp í slíku starfi er mikilvægt að þeir sem starfa með börnum og ungmennum geti lesið í vísbendingar um samskiptavanda og einelti, þekki mismunandi birtingarmyndir þess og viti hvernig bregðast eigi við þegar slíkt kemur upp.

Æskulýðsvettvangurinn stendur fyrir námskeiði um einelti í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Á námskeiðinu er m.a. farið yfir eftirfarandi atriði:

Hvað er samskiptavandi og hvað er einelti?
Hverjar eru birtingarmyndir eineltis?
Hvernig á að bregðast við einelti í félagsstarfi?
Hvernig get ég skapað jákvæða menningu í mínum hópi?
Hvaða verkfæri og úrræði eru í boði innan Æskulýðsvettvangsins?

Ítarlegri upplýsingar um námskeið um einelti

 

Hatursorðræða:

Hatursorðræða er vaxandi vandamál í íslensku samfélagi og hatursorðræða á netinu er ein af þeim stóru hættum sem steðja að börnum og ungmennum í dag. Á námskeiðinu er meðal annars fjallað um leiðir til að koma í veg fyrir að börn og ungmenni tileinki sér slíka hegðun.

Hatursorðræða er vaxandi vandamál í íslensku samfélagi og er ein af þeim stóru hættum sem steðja að börnum og ungmennum í dag. Vegna þeirra alvarlegu afleiðinga sem hatursorðræða getur haft á einstaklinga og hópa fólks er mikilvægt að leita leiða til þess að koma í veg fyrir að hún haldi áfram að vaxa og sporna gegn því að börn og ungmenni tileinki sér slíka hegðun.

Á námskeiðinu er m.a. farið yfir eftirfarandi atriði:

  • Hvað er hatursorðræða?
  • Hverjar eru mismunandi birtingarmyndir hatursorðræðu?
  • Hverjum beinist hatursorðræða gegn?
  • Hverjar eru afleiðingar hatursorðræðu?
  • Hvernig er hægt að koma í veg fyrir hatursorðræðu á meðal barna og ungmenna?

Ítarlegri upplýsingar um námskeið um hatursorðræðu

 

Hinseginfræðsla: 

Í íþrótta- og æskulýðsfélögum á Íslandi er fjöldi hinsegin barna og ungmenna. Mikilvægt er að þau finni fyrir öryggi og vellíðan. Þekking og fræðsla á hinsegin málum er grundvöllur fyrir því að draga úr fordómum og mismunun. Máli skiptir fyrir þennan hóp efla þekkingu, auka skilning á stöðu hinsegin fólks og að fagna fjölbreytileikanum.

Á námskeiðinu er fjallað um öll helstu hugtökin innan hinsegin regnhlífarinnar, hvað þau þýða og hvað við getum gert til að styðja við bakið á hinsegin fólki og íþróttafélögum.

Ítarlegri upplýsingar um hinsegin fræðslu

 

Skjánotkun barna og ungmenna: 

Skjánotkun barna og ungmenna hefur aukist mikið undanfarin ár. Mikilvægt er að stuðla að jákvæðri umgengni við tækni, tölvur og snjalltæki og hafa viðmið um slíkt í starfi með börnum og ungmennum þar sem skjáfíkn hefur einnig aukist samhliða aukinni notkun á þessum tækjum.

Mikilvægt er fyrir öll þau sem starfa með börnum og ungmennum að vita hvað felur í sér að vera sterkur leiðtogi og sýna fyrirmynd í verki þegar kemur að þessu málefni. Á þessu námskeiði er farið yfir mismunandi þætti sem snúa að skjánotkun barna og ungmenna, muninn á síma- og símalausum skóla ásamt því hvernig er hægt að styrkja sig sem leiðtoga í starfi. Námskeiðið hentar öllum þeim sem starfa með börnum og ungmennum eða láta málefnið sig varða.

Ítarlegri upplýsingar um námskeiðið