Fara á efnissvæði

Keppnisgreinar 2024

Pönnukökubakstur

Dagur, tími og staðsetning

Dagsetning: Laugardagur 8. júní. 
Tími: 14:00 - 16:00. 
Staðsetning: Þjónustumiðstöð sveitarfélagsins.

Mæting klukkan 13:45.

 

Kynja- og aldursflokkar

Einn kynjaflokkur, 50 ára og eldri. 

 

Keppnisfyrirkomulag / reglur

  1. Dæmt er eftir hraða, fjölda, leikni, hreinlæti, útliti og bragðgæðum. 

  2. Uppskriftina velur keppandinn sjálfur að því undanskildu að í henni eiga að vera 150 grömm hveiti og að minnsta kosti 1 egg (meðalstórt). 

  3. Keppandi leggur fram nákvæma uppskrift áður en keppni hefst. Nafn keppanda, heimilisfang og símanúmer skal koma fram á blaðinu. 

  4. Mótshaldari leggur til algeng efni í pönnukökur: Hveiti, sykur, egg, mjólk, smjörlíki, matarolíu, lyftiduft, sódaduft (natron), sítrónudropa, vanilludropa og kardimommudropa. Ef óskað er eftir öðrum efnum/bragðefnum eða einhverri sérstakri tegund af hráefni verða keppendur að útvega þau sjálfir og hafa meðferðis. Keppandi skal þó nota það hveiti sem mótshaldari leggur til. 

  5. Hver keppandi fær vinnuborð með rafmagnshellu, áhald til að hræra deigið með, ausu, skál, mæliílát, sigti, sleikju, vinnudisk, kökufat og borðklút. 

  6. Keppendur koma með eigin pönnukökupönnu og pönnukökuspaða. Heimilt er að koma með ausu og áhald til að hræra deigið með. Ekki er þó heimilt að nota rafmagnsþeytara. 

  7. Áður en keppni hefst eru rafmagnshellur prófaðar, áhöldum raðað og allt tekið til í deigið. Leyfilegt er að blanda þurrefnunum í skál áður en keppni hefst, en ekki skal setja vökva eða byrja að hræra deigið saman fyrr en keppni er hafin.  

  8. Í lokin er 10 pönnukökunum skilað upprúlluðum með sykri en hinar tvíbrotnar í horn. 

  9. Keppni er ekki lokið fyrr en pönnukökum hefur verið komið fyrir á kökufati og gengið frá vinnuborði, áhöldum raðað og borðið þvegið. 

Stigatafla

Hraði og fjöldi (25 stig)

  • Fjöldi – 10 stig (20 kökur gefa 10 stig, 19 kökur gefa 9 stig osfrv.) 
  • Hraði – 15 stig (17 mínútur gefa 15 stig, 18 mínútur gefa 14 stig osfrv.)

Leikni og hreinlæti (25 stig) 

  • Örugg vinnubrögð – 5 stig
  • Umgengni á vinnusvæði meðan bakað er – 5 stig 
  • Frágangur á pönnukökum á fati – 5 stig 
  • Frágangur á vinnusvæði – 5 stig 
  • Frágangur uppskriftar – 5 stig 

Útlit (25 stig) 

  • Engin göt – 5 stig 
  • Allar kökur rétt lagaðar – 5 stig 
  • Allar kökur samlitar – 5 stig 
  • Engin kaka hrá eða brennd – 5 stig 
  • Engin kaka kekkjótt – 5 stig 

Bragðgæði (25 stig)

  • Góðar pönnukökur gefa mest 25 stig ,Sæmilegar pönnukökur gefa mest 15 stig.
  • Slæmar pönnukökur gefa mest 5 stig.