Fara á efnissvæði
07. febrúar 2024

Ásta Katrín: Aðferðafræði sem nýtist öllum börnum

Ásta Katrín í heilsuleikskólanum Skógarási hefur kennt eftir svokallaðri YAP-aðferðafræði frá árinu 2015. Hún segir börn með frávik geta hjálpað börnum með erlendan bakgrunn að læra íslensku og taka þátt í samfélaginu.

„Það gagnast börnum langmest og er líka gott fyrir samfélagið þegar byrjað er að styðja við hreyfifærni þeirra strax í leikskóla. Þau börn verða félagslega sterkari og líklegri til að taka þátt í íþróttum og öðru starfi þegar þau eldast,“ segir Ásta Katrín Helgadóttir, íþróttakennari við heilsuleikskólann Skógarás á Ásbrú í Reykjanesbæ. 

Ásta hefur kennt börnum eftir svokallaðri YAP-aðferðafræði (e. Young Athletes Project) í leikskólanum frá árinu 2015. 

Aðferðafræðin byggir á hreyfiþjálfun og snemmtækri íhlutun í hreyfingu og hefur áhrif á ýmsa þætti, svo sem félagsfærni, málþroska og sjálfsmynd. Tekið er mið af því að hægt sé að þróa aðferðina áfram. Kennsluefnið er einfalt, aðgengilegt og skýrt og nýtist einfaldur grunnbúnaður við framkvæmd þess. 
Aðferðafræðin og verkefnið er á vegum Special Olympics International. 

Hvert land getur þróað verkefnið áfram eftir sínum kröfum og þörfum. Hér á landinu hefur það verið lagað að starfinu í leikskólanum. 

Kennsluefninu er skipt upp í átta meginþætti sem byggja upp grunnhreyfifærni, en efnið var sett upp í samstarfi við Boston-háskóla og Norður-Karólínuháskóla á sínum tíma. Miðað er við átta vikna prógramm þar sem hver dagur er skipulagður út frá markmiði hvers þáttar. Mælingar eru gerðar í upphafi æfinga og að loknu tímabili. YAP-aðferðin skilar sér líka í því að styrkja börnin og undirbúa þau fyrir fyrsta íþróttatímann í grunnskóla og þátttöku í almennu íþróttastarfi.

 

Íþróttakennarinn 

Ásta Katrín hefur í áratugi unnið með fötluðum einstaklingum og m.a. unnið hvataverðlaun Íþróttasambands fatlaðra fyrir störf sín. Ásta er fædd og uppalin á Kirkjubæjarklaustri. Þar stundaði hún frjálsar íþróttir og hóf þjálfaraferil sinn.

Hún var líka með leikjanámskeið á sumrin. Ásta vann hjá UMFÍ árin 1983–1984 þegar Vestur-Skaftfellingar voru í meirihluta starfsfólks UMFÍ. Hún fór í Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni og útskrifaðist árið 1987.

Eftir það fór hún að þjálfa, meðal annars á Siglufirði. Þar voru ekki frjálsar í boði og varð úr að hún og íþróttakennarinn Þórarinn Hannesson, ásamt hópi af vösku fólki, stofnuðu ungmennafélag sem var með þrjár deildir til að byrja með, frjálsíþróttadeild, körfuknattleiksdeild og sund. 

Þetta var ungmennafélagið Glói, stofnað árið 1994, og hjá félaginu sáu þau um þjálfun frjálsra íþrótta og leikjanámskeið. Ásta þjálfaði líka hjá Snerpu, íþróttafélagi fatlaðra á Siglufirði, sem var upphaflega stofnað árið 1987 fyrir fatlaða.

 

Aðferð fyrir alla

Ásta Katrín hóf innleiðingu á verklegum hluta YAP hér á landi eftir að Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi, bað hana um að skoða og kynna sér efnið árið 2015 og hvort aðferðafræðin gæti nýst hér. 

„Ég var á þessum tíma með hreyfiþjálfun í leikskólanum og sá strax að YAP hentaði mjög vel af því að það er svo einfalt. Það geta í raun allir framkvæmt það inni á leikskóla og það þarf ekki endilega „sérfræðing“ til að byrja og fylgja eftir efninu sem er afar skýrt uppsett,“ segir hún. 

Komið hefur í ljós að þótt YAP hafi í fyrstu verið innleitt til að virkja börn með sérþarfir hefur komið í ljós að öll börn njóta góðs af aðferðafræðinni óháð því hvaðan þau koma og hverjar þarfir þeirra eru. 

Ásta bendir sem dæmi á að í Skógarási nýtist aðferðin afar vel flestum börnum, ekki síður börnum af erlendum uppruna, börnum með einhvers konar frávik og svo auðvitað öllum hinum. Þar séu í raun allir jafnir. 

 

Hátt hlutfall erlendra barna

Í Reykjanesbæ er hátt í þriðjungur bæjarbúa af erlendu bergin brotinn. Það endurspeglast í leikskólanum Skógarási, að sögn Ástu. 

„Í leikskólanum eru 80 börn og 60 prósent þeirra af erlendum uppruna og tvítyngd á aldrinum tveggja til fimm ára. YAP hefur reynst okkur meðal annars afar árangursríkt við íslenskukennslu en mörg önnur námstækifæri skapast jafnframt í hreyfistundum. Þau þjálfast ekki bara í grunnþáttum hreyfiþroska heldur þróa þau einnig með sér mikilvæga færni til náms. Með því er m.a. verið að tala um að skiptast á, læra að deila, fara eftir fyrirmælum og skilja leiðbeiningar sem þeim eru gefnar. 

Í skipulögðum hreyfistundum er hægt að blanda inn í hreyfingarnar stærðfræði, orðaforða og málörvun, flokkun og ýmsu öðru, eins og lestri,“ segir hún og bendir á að foreldrar í leikskólanum telji YAP hafa haft jákvæð áhrif á börnin. Kennarar hafi líka verið ánægðir með hvernig tekist hafi til. 

„Þú getur valið svolítið úr þessu. Stór hluti efnisins er leikir þar sem fléttaðar eru inn æfingar sem tengjast vitsmunaþroskanum, eins og að læra stafi hljóð eða para saman. Það hentar sumum börnum betur að læra í leik eða á hreyfingu,“ segir hún og bendir á að hún hafi oft parað saman börn af erlendu bergi brotin og börn með íslenskan bakgrunn. 

„Það íslenska getur orðað hlutina og leiðir hitt barnið áfram í gegnum æfingarnar. Erlenda barnið heyrir það og endurtekur og lærir í raun íslensku í leiðinni. Ég er sjálf meira til hliðar og gríp inn í ef orð vantar eða skilningur þarf að vera meiri. Þegar maður horfir á þetta í víðu samhengi sést að verkefnið skilar miklu; það er hagkvæmt fyrir samfélagið, fyrir foreldra og svo auðvitað börnin, sem græða langmest á þessu.

Samfélagslega er mjög gott að byrja svona snemma. Í grunnskóla er dýrt að halda úti aukatímum eða sérkennslu fyrir þá nemendur sem þurfa á því að halda, börn með slaka hreyfifærni, hegðunarvandkvæði, ADHD og hvaðeina,“ segir Ásta og bendir á að nemendur sem áður þurftu sérkennslu komi enn betur út úr YAP en aðrir. 

„Þau börn sem eiga við vanda að etja eru iðulega félagslega verr stödd en önnur börn og síður líkleg til að taka þátt í íþróttastarfi. Þau verða undir í skólakerfinu og eru líklegri til að flosna upp úr skóla. Þau skila sér illa í framhaldsnám, ef þau þá gera það. Þá tekur samfélagið við þeim og það kostar okkur helling,“ heldur Ásta áfram en bætir við að ekki hafi verið kannað hvort börnin úr leikskólanum Skógarási skili sér í meiri mæli í íþróttastarf í Reykjanesbæ en önnur börn. 

„Ég get allavega sagt að börnin eru rosalega flott þegar þau fara frá okkur, tilbúin að fara út í lífið og takast á við dagleg störf,“ segir hún.

Nýjasta tölublað Skinfaxa

Rætt er við Ástu Katrínu í nýjasta tölublaði Skinfaxa. Blaðið er aðgengilegt í íþróttahúsum og sundlaugum og sent til áskrifenda. Blaðið er líka aðgengilegt á miðlum UMFÍ. Rafræn útgáfa Skinfaxa er mjög aðgengileg og gott að lesa blaðið bæði á umfi.is og issuu.com.

 

Lesa Skinfaxa á umfi.is

Lesa Skinfaxa á issuu.com

 

Ef þú vilt koma einhverju á framfæri sem á erindi við íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna þá er um að gera og senda okkur línu á umfi@umfi.is

Þú getur líka smellt á blaðið hér að neðan og lesið það á umfi.is.