Fara á efnissvæði
09. nóvember 2023

Gerði ítarlega tölfræðigreiningu úr Sportabler

„Eftir því sem börn og ungmenni æfa fleiri íþróttagreinar og oftar í viku eru minni líkur á að þau hætti í íþróttum,“ segir Peter O‘Donoghue, prófessor við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík.

Peter hefur kafað ofan í gögn Sportabler um íþróttaiðkun barna og ungmenna og skoðað íþróttaiðkun frá því í febrúar 2021 og fram í febrúar á þessu ári. Stór hluti íþróttafélaga á Íslandi notar kerfi Sportabler til að halda utan um íþróttaiðkendur. Einhver félög nota önnur kerfi og takmarkar það rannsóknina. 


Greiningin var unnin í samstarfi við Sportabler, en gögn úr gagnagrunni fyrirtækisins hafa gert rannsakendum kleift að kortleggja íþróttastarf barna og unglinga á Íslandi á mun ítarlegri og veigameiri hátt en áður hefur verið mögulegt.

Einnig hefur verið gerð nákvæm greining á þátttöku og brottfalli iðkenda hjá átta stórum sérsamböndum innan ÍSÍ. Fulltrúum þeirra var boðið á fund í Háskólanum í Reykjavík í hádeginu í dag þar sem Hafrún Kristjánsdóttir, prófessor við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík, og Markús Máni, stofnandi Abler, fóru yfir verkefnið og tilurð þess. Peter kynnti fór svo yfir aðferðafræðina og helstu niðurstöður. 

Í kynningu Peters kom fram að mengið sem um var að ræða var rúmlega 42 þúsund iðkendur í 45 íþróttagreinum, flestir fæddir á árunum 2003 til 2017. Sumir þeirra stunduðu eina íþrótt en önnur fleiri. 

Fjallað er ítarlega um greiningu úr Sportabler og aðra kynningu Peters í nýjasta tölublaði Skinfaxa. 

Þú getur lesið blaðið á umfi.is

Margir skipta um grein

Í Skinfaxa segir Peter: 

„Við sjáum að það var aðeins 15% brottfall úr skipulögðu íþrótta starfi á tímabilinu. Við óttuðumst að það væri miklu meira. En tiltölulega fáir hættu og margir skiptu um grein,“ segir hann og nefnir sem dæmi að iðkendur hættu í handbolta og fóru í fótbolta eða öfugt. 

Ekki er munur á milli kynja, að hans sögn. 

Peter segir gögnin gríðarlega umfangsmikil og gefa góðar vísbendingar um þróun íþróttastarfs. 

„Við sjáum að því fleiri íþróttagreinar sem börn og ungmenni æfa, þeim mun minni líkur eru á að þau hætti í íþróttum. Margir iðkendur eru í tveimur greinum og æfa oft. En við sjáum líka í tölunum að  brottfall eykst í hlutfalli við tíðni æfinga í hverri viku. Þar á ég við að eftir því sem iðkendur æfa sjaldnar í hverri viku eru meiri líkur á að þeir hætti æfingum,“ segir Peter og bendir á að fjórar æfingar í viku eða oftar dragi verulega úr líkum þess að iðkendur hætti íþróttaæfingum. Ekki er teljandi munur á kynjum, að sögn Peters. Þau gögn sem hann hefurskoðað benda til að algengara sé meðal drengja en stúlkna að æfa fleiri íþróttagreinar en eina. 

„Gögnin sýna líka að börn af íslensku bergi brotin æfa gjarnan tværeða fleiri greinar. Það er meira en börn sem eiga foreldra frá Póllandi eða öðru landi. Við getum unnið með þá vitneskju,“ segir Peter.

 

Fjallað er ítarlega um greiningu úr Sportabler og aðra kynningu Peters í nýjasta tölublaði Skinfaxa. 

Þú getur lesið blaðið á umfi.is