Fara á efnissvæði
16. ágúst 2021

Hagræðing úrslita er mesta ógnin

„Það er ekki spurning um hvort heldur frekar hvenær úrslitum verður hagrætt í íþróttaleikjum á Íslandi. Veltan í veðmálum á íþróttaleiki er orðin gríðarleg og mikið undir. Skipulögð glæpasamtök eru að færa sig yfir í íþróttirnar. Við í íþróttahreyfingunni verðum að vera vel á verði því að margir telja hagræðingu úrslita vera mestu ógn sem steðjar að
íþróttahreyfingunni um þessar mundir,“ segir Pétur Hrafn Sigurðsson hjá Íslenskri getspá og Íslenskum getraunum.

Pétur flutti einkar áhugavert erindi á Stefnumóti UMFÍ þar sem fulltrúar nær allra sambandsaðila UMFÍ komu saman á Hótel Geysi í vor. Í erindi Péturs kom fram að veltan á á erlendum veðmálasíðum á íslenska knattspyrnuleiki hefur aukist gríðarlega á síðastliðnum árum og getur hún nú numið 1,5-2 milljörðum króna á dag. 

Helsta ástæðan fyrir þessum gríðarlega vexti sagði Pétur þá að íslensk knattspyrna er leikin að sumri til þegar flestar deildir eru í fríi og því eru færri viðburðir fyrir tippara til að tippa á. Auk þess er oft leikið á mánudögum hér á landi þegar framboð er lítið af leikjum í öðrum löndum sem eru með sumardeildir þar sem algengast er að leika um helgar.

„Menn halda kannski að fólk í öðrum löndum tippi ekki á íslenska  knattspyrnuleiki. En það er fjarri sanni. Þegar ekkert annað er í boði getur veltan verið þetta mikil,“ sagði Pétur. Þegar veltan er orðin svo mikil eykst rýmið fyrir svikastarfsemi og meiri hætta er á hagræðingu úrslita með einum eða öðrum hætti. 

 

Komið í veg fyrir svindl

Pétur sagði alla þurfa að leggjast á eitt til að koma í veg fyrir svindl. Íþróttahreyfingin leikur lykilhlutverk með öflugri fræðslu til íþróttafólks, dómara og forystufólks í hreyfingunni. „Það er ánægjulegt að fylgjast með hversu vel íþróttahreyfingin hefur tekið við sér á undanförnum árum og staðið fyrir fræðslu innan vébanda sinna. Því miður er ekki hægt að segja það sama um stjórnvöld. Stjórnvöld hafa ekki fylgt eftir lögum og reglugerðum til að koma í veg fyrir að erlend veðmálafyrirtæki starfi hér á landi sem hafa ekki heimild til þess og sem leggja ekkert til samfélagsins, greiða enga skatta,“ sagði Pétur og bætti við að „stjórnvöld hefðu til þess margvíslega möguleika en því miður hefur ekkert verið gert, þrátt fyrir mikinn þrýsting frá forystusamtökum íþróttahreyfingarinnar UMFÍ og ÍSÍ. Með því að koma í veg fyrir að Íslendingar geti tippað hjá erlendum ólöglegum veðmálafyrirtækjum geta
stjórnvöld minnkað stórlega líkurnar á hagræðingu úrslita í íþróttum á Íslandi”.

 

Svindl í getraunum

Pétur nefndi nokkrar leiðir sem notaðar eru í svindli í íþróttum og geta leitt til hagræðingar úrslita.

• Stofna til vináttu við leikmenn. Leikmaður vill síður að vinir sínir tapi á leikjum sem þeir hafa veðjað á.

• Freista leikmanna, svo sem að lofa þeim nýjum símum ef þeir brenna af í víti eða styðja fjárhagslega við fjölskyldur leikmanna.

• Þar sem hægt er að veðja á fjölda innkasta, gul spjöld og atriði sem hafa ekki bein áhrif á úrslit leiksins, eykst freistnivandinn.

• Lið fær fjárstuðning frá fjársterkum einstaklingi. 

• Koma með leikmenn/þjálfara inn í liðið, ná árangri fyrst en tapa svo óvænt stórt.

• Mútur til þjálfara eða leikmanna. Um leið og það gerist er viðkomandi fastur í netinu.

• Fyrir nokkrum árum var komið að máli við leikmann í einu af yngri landsliðunum og hann beðinn um að brenna af fyrsta vítinu. Hann varð steinhissa og neitaði. 

• Dæmi eru um að fjárhættuspilarar sendi framkvæmdastjórum og formönnum deilda hótanir, tapist leikur þeim í óhag.

 

Viðtalið og greinin birtust í Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Blaðið allt er hægt að lesa hér: Smella og lesa Skinfaxa