Fara á efnissvæði
07. nóvember 2023

Hvetur íþróttafélög til að halda umhverfisvænni viðburði

Íþróttafélög eru mislangt á veg komin á grænni vegferð sinni. Verkefnastjóri hjá fyrirtækinu Einurð vinnur að gerð handbókar fyrir íþróttafélög sem vilja minnka umhverfisspor sitt. Félagið er að skipuleggja gönguferðir þar sem einblínt er á umhverfis- og loftslagsmál.

Ekki liggja í raun fyrir miklar upplýsingar um umhverfisstefnu íþróttafélaga og hvað þau gera til að draga úr umhverfisspori sínu. Íþróttafélög eru mismunandi stödd, sum standa sig afar vel en önnur illa. Almennt gera íþróttafélög ekki mikið með stefnu sína í umhverfismálum og mættu standa sig betur í því að segja fólki frá því hvað þau gera, að mati Brynjars Freys Eggertssonar, verkefnastjóra hjá félaginu Einurð.

Brynjar er fulltrúi Einurðar í samevrópska verkefninu Green League, sem nýtur styrks úr sjóðum Evrópusambandsins, og er þar skoðað hvernig íþróttafélög á Ítalíu, Slóveníu, Grikklandi, Kýpur, Belgíu og Íslandi standa sig í umhverfismálum og hvaða skref þau geta stigið til að gera félögin umhverfisvænni. Hann og tengiliðir verkefnisins í samstarfslöndunum vinna nú að því að taka saman handbók um það hvernig halda megi viðburð með sem minnstu umhverfisspori.

 

Best að fara hægt af stað

Brynjar segir íþróttafélög mislangt komin í þessum málum. „Það er svo margt vænt og grænt í íþróttageiranum. En því er ekki fylgt nægilega vel eftir,“ segir hann og bendir á að samstarfshópurinn hafi skoðað stefnu margra félaga.

Þar á meðal var breska knattspyrnufélagið Forest Green Rovers.

„Það gengur nokkuð lengra en öll önnur félög, nýtir aðeins sólarorku og býður félagsfólki ekki upp á bílastæði við leiki liðsins heldur hleðslustöðvar og hjólagarða. Stuðningsfólk liðsins má heldur ekki koma á eigin bílum á leiki. Þess í stað hittist það á ákveðnum stað og tekur saman rafmagnsrútu á íþróttavöllinn. Fólk kemst einfaldlega ekki öðruvísi á leiki liðsins en með umhverfisvænum fararskjótum til að koma í veg fyrir losun mengandi efna út í andrúmsloftið,“ segir Brynjar.

Hann kann mýmörg dæmi að fyrirmyndarleiðum íþróttafélaga sem vilja draga úr kolefnislosun eins og kostur er.

„Eitt knattspyrnufélag á Kýpur borgar fólki fyrir að planta trjám fyrir hvern leik,“ segir Brynjar og bætir við að hann hafi einmitt tekið eftir því að UMFÍ hafi á Unglingalandsmótinu um  verslunarmannahelgina 2022 plantað trjám á golfvellinum á Selfossi. Það þurfi ekki mikið til, því margt smátt geri eitt stórt og einhvers staðar þurfi að byrja vegferðina að umhverfisvænna félagi.

 

Viljum hvorki grænþvott né íþróttaþvott

Í tengslum við verkefnið fór Brynjar á vinnustofu um umhverfismál íþróttafélaga í Slóveníu. Þar kom fram að umhverfisviðmið væru notuð sem markaðstæki. Þar á meðal gæfu fyrirtæki og félög sig út fyrir að vinna eftir umhverfisviðmiðum og draga úr útblæstri þegar slíkt væri ekki raunin. Þetta er svipað og svokallaður íþróttaþvottur (e. sportswashing), sem á við um þau ríki sem nýta íþróttir og íþróttaviðburði til að breiða yfir neikvæða umræðu, eins og Sádi-Arabar hafa til dæmis gert með kaupum á knattspyrnumönnum.

Vinnubrögðin eru þau sömu hvort heldur er átt við íþróttaþvott og grænþvott í umhverfismálum, enda er með þeim reynt að blekkja fólk.

Í tengslum við grænþvott Katara eru engar sannanir fyrir umhverfisloforðum þeirra.

 

Viðleitni til að hafa umhverfisvænni viðburði

Íþróttafélög þurfa oft ekki að gera mikið til að standa sig betur í umhverfismálum, að mati Brynjars. Stundum þurfi þau aðeins að vekja athygli á því sem þau gera og benda öðrum á og stíga stutt skref á grænni vegferð.

„Öll skref eru góð skref og það er alveg hægt að fara mörg stutt skref. Sumir fara alla leið eins og þau hjá Forest Green Rovers, sem

þrátt fyrir að hafa gengið langt ætla að draga áfram úr útblæstri til að verða kolefnislaus fyrir ákveðið tímabil. Flestum dugir að grípa til annarra ráða,“ segir Brynjar og bendir meðal annars á að draga megi úr plastnotkun, finna leiðir til að endurnýta gamlan íþróttabúnað og þar fram eftir götunum.

„Félögin og fólkið geta gert svo margt gott saman. Fólk getur sem dæmi komið með eigin skálar undir mat og fjölnota bolla undir kaffi og drykkjarföng. Það má jafnvel veita þeim sem það gera afslátt af veitingum eða annan hvern kaffibolla ókeypis og hvetja til þess að fleiri hugsi meira um umhverfið en áður. Það er líka hægt að kaupa matvæli í nærumhverfi íþróttafélagsins eða versla við fyrirtæki sem standa sig vel í umhverfismálum. Það eru fjölmargar leiðir til fyrir íþróttafélög sem vilja halda viðburði á umhverfisvænan hátt. Félögin eiga svo að lyfta sjálfum sér upp þegar vel tekst til í þessum málum og segja frá því hvað þau gera,“ segir Brynjar að lokum.

 

Átta haustviðburðir

Einurð stendur fyrir átta viðburðum í haust sem allir tengjast frumefnunum fjórum. Göngugarpurinn Einar Skúlason, sem m.a. hefur komið að hinni árlegu göngubók UMFÍ, leiðir göngu. Auk þess verður boðið upp á sjósund, jóga og fleira.

Viðburðirnir eru hugsaðir fyrir alla fjölskylduna og sjónum beint að því sem fyrir augu ber hverju sinni. Vorið eða sumarið 2024 er svo stefnt á að halda viðburð þar sem umhverfismál verða í brennidepli. Í skoðun er að halda plokkhlaup og munu þátttakendur í því vigta ruslið sem þeir tína, að sögn Brynjars Freys, sem sér fyrir sér að fjölskyldur og vinahópar geti hlaupið saman á viðburðinum.

Nánari upplýsingar um göngurnar má finna á

https://www.facebook.com/einurd/ 

www.einurd.is

 

Tveir viðburðir á næstunni

Tveimur viðburðum er þegar lokið af verkefninu. Sá fyrsti fór fram í október og var það ganga í Búrfellsgjá sem Einar Skúlason leiddi. Einar stóð líka fyrir göngu um Elliðárdalinn í lok október. Þar fræddust þátttakendum um skógrækt og sögu Elliðaárdalsins.

Þriðji og næsti viðburðurinn er ganga í Laugardalnum með Hrefnu Guðmundsdóttur, höfundi bókarinnar Why are Icelanders So Happy? VIðburðurinn verður þriðjudaginn 4. nóvember næstkomandi.

Stefnan er að hittast fyrir framan Skautahöllina í Laugardal og ganga rösklega í Laugardalnum, stunda hláturjóga og gera æfingar úr jákvæðri sálfræði. 

 

Nánar um viðburðinn hér: 

Hláturjóga í Laugardal

 

Þessi grein er í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þú getur lesið enn fleiri góðar greinar þar á www.umfi.is. Þú getur smellt á myndina hér að neðan og lesið blaðið allt. 

Hér er dæmi um greinar í blaðinu:

•    Magndís Alexandersdóttir: ég er fædd inn í ungmennafélagshreyfinguna.
•    Vésteinn Hafsteinsson: Börn á að ala upp sem leiðtoga.
•    Ungmennaráð UMFÍ: Mikilvægast að fræðast og vera fyrirmynd.
•    Merkilegt að geta hlaupið með forsetanum.
•    Beið eftir pennavini í meira en 40 ár.
•    Ungmenni í leiðtogavinnu.
•    Ný vinabönd verða til á Reykjum.
•    Íþróttafélögin stuðla að vellíðan eldri borgara.
•    Tímamótatillaga á þingi UMFÍ
•    Hvernig getur íþróttamaður tekist á við vonbrigði?
•    Gamlir mótherjar hittast á ný.
•    Svakalegt stuð á Unglingalandsmóti UMFÍ.
•    Metaðsókn og myndir úr Drulluhlaupi Krónunnar.
•    Íslenskur glímukóngur slær í gegn í Bandaríkjunum.
•    Börnin hoppa sér til ánægju.
•    Borðtennisdeildir spretta víða upp.
•    Gamla myndin: Allt er gott sem endar vel.

 

Lesa Skinfaxa