Fara á efnissvæði
11. mars 2024

Vilt þú taka þátt í að efla íþróttastarf?

ÍSÍ og UMFÍ leita að sextán hæfileikaríkum og metnaðarfullum einstaklingum með brennandi áhuga á íþróttastarfi á Íslandi til að taka þátt í að byggja upp öflugt starf íþróttahéraða á öllu landinu.  

Starfsmennirnir verða staðsettir á átta svæðastöðvum um allt land en tveir starfsmenn verða á hverri stöð.

Horft er til þess að starfsmennirnir sextán muni vinna saman sem einn þar sem styrkleikar og hæfileikar hvers og eins verða nýttir. 

Starfsfólk svæðastöðva tekur þátt í að skapa tækifæri og þróa árangursríkt íþróttaumhverfi fyrir börn - og ungmenni, fá tækifæri til að vinna að fjölbreyttum verkefnum sem miða að því að hámarka tækifæri barna og ungmenna til íþróttaiðkunar. 

Starfsemi svæðastöðva byggir á teymishugsun þar sem samvinna, fagmennska og framsækni í sterkri liðsheild er grundvallaratriði.  

Markmiðið með svæðastöðvunum

  • Vinna með íþróttahéruðum að eflingu íþróttastarfs um allt land.
  • Vinna að innleiðingu á stefnu og markmiðum íþróttahreyfingarinnar.
  • Vinna að innleiðingu á stefnu og markmiðum stjórnvalda í íþróttamálum.
  • Bæta almennt umgjörð í kringum íþróttastarf.

Helstu verkefni svæðastöðva

  • Samstarf, samskipti og stuðningur við íþróttahéruð og aðildarfélög.
  • Samstarf og samskipti við opinbera aðila varðandi stuðning og þjónustu íþróttafélaga um allt land.
  • Vinnsla verkefna sem tengjast aukinni þátttöku barna í íþróttum og farsæld.
  • Verkefnisstjórnun og vinna að nýsköpunarverkefnum. 
  • Móta skipulag og eftirfylgni tengt fræðslumálum íþróttahéraða.
  • Fræðsla og kynning til íþróttahéraða og aðildarfélaga í ýmsum málum.
  • Samræming málaflokka, stjórnarhátta, verkferla, öryggis- og viðbragðsáætlana.
  • Koma upp og viðhalda leiðbeiningum og viðmiðum fyrir stjórnun íþróttahéraða og stjórnendur íþróttafélaga.
  • Yfirlit og eftirfylgni með lögbundnum skyldum íþróttahéraða og aðildarfélaga.
  • Umsjón og þátttaka í samráði og á samræmingarfundum.

Menntunar og hæfniskröfur

  • Leitað er að hæfileikaríkum einstaklingum með fjölbreytta þekkingu til að gegna ofangreindum verkefnum.
  • Reynsla og þekking af starfi innan íþróttahreyfingarinnar er kostur.
  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi og samstarfi við sveitarfélög er kostur.
  • Styrkleiki og reynsla á eftirfarandi sviðum er kostur:
    • Verkefnastjórnun
    • Mótun ferla
    • Fræðsla og miðlun upplýsinga
    • Teymisvinna

Til viðbótar er mikilvægt að umsækjendur búi yfir frumkvæði, séu sjálfstæðir, geti unnið í teymi, miðlað upplýsingum munnlega og skriflega, unnið skipulega, haft góða samskiptahæfileika og getu til að ná árangri í mjög fjölbreyttu umhverfi.

Umsækjendur þurfa að sjálfsögðu að hafa hreint sakavottorð í samræmi við ákvæði í íþróttalögum.

Svæðastöðvarnar eru eftirfarandi og þjónusta eftirfarandi íþróttahéruð

Vesturland:

  • Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH)
  • Íþróttabandalag Akraness (ÍA)
  • Ungmennasamband Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga (UDN)
  • Ungmennasamband Borgarfjarðar (UMSB).

Sækja um starfið á Vesturlandi.

Vestfirðir:

  • Héraðssambandið Hrafna-Flóki (HHF)
  • Héraðssamband Bolungarvíkur (HSB)
  • Héraðssamband Strandamanna (HSS)
  • Héraðssamband Vestfirðinga (HSV)

Sækja um starfið á Vestfjörðum.

Norðurland vestra:

  • Ungmennasamband Austur Húnvetninga (USAH)
  • Ungmennasamband Vestur Húnvetninga (USVH)
  • Ungmennasamband Skagafjarðar (UMSS).

Sækja um starfið á Norðurlandi vestra.

Norðurland eystra:

  • Héraðssamband Þingeyinga (HSÞ)
  • Íþróttabandalag Akureyrar (ÍBA)
  • Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar (UÍF)
  • Ungmennasamband Eyjafjarðar (UMSE)

Sækja um starfið á Norðurlandi eystra.

Austurland:

  • Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands (UÍA)
  • Ungmennasambandið Úlfljótir (USÚ)

Sækja um starfið á Austurlandi.

Suðurland:

  • Héraðssambandið Skarphéðinn (HSK)
  • Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV)
  • Ungmennasamband Vestur Skaftafellssýslu (USVS)

Sækja um starfið á Suðurlandi.

Suðurnes:

  • Íþróttabandalag Reykjanesbæjar (ÍRB)
  • Íþróttabandalag Suðurnesja (ÍS)

Sækja um starfið á Suðurnesjum.

Höfuðborgarsvæðið:

  • Íþróttabandalag Hafnarfjarðar (ÍBH)
  • Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR)
  • Ungmennasamband Kjalarnesþings (UMSK)

Sækja um starfið á höfuðborgarsvæðinu.

Nánari upplýsingar veita:
Sverrir Briem - sverrir@hagvangur.is
Hanna Carla Jóhannsdóttir - hannacarla@isi.is

Um verkefnið
ÍSÍ og UMFÍ standa að verkefninu og hafa auk þess fengið stuðning frá mennta- og barnamálaráðuneytinu. Samtökin hafa undirritað samning um eflingu íþróttastarfs á landsvísu með því að koma á fót svæðastöðvum og hvatasjóði. Svæðastöðvunum er ætlað að styðja við íþróttahéruð landsins við innleiðingu á stefnu íþróttahreyfingarinnar og ríkisins í íþróttamálum auk þess að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi með sérstaka áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Aðdragandi og skipulag
  • UMFÍ og ÍSÍ hafa lengi starfrækt vinnuhópa til að skoða stöðu íþróttahéraða í landinu.
  • 25 íþróttahéruð um land allt, með mjög mismunanid starfsemi og virkni.
  • Mismunandi úthlutun fjármagns frá lottó til íþróttahéraða og aðildarfélaga og mismunandi reglur hjá ÍSÍ og UMFÍ.
  • Sameiginlegar nefndir samtakanna unnu tillögur varðandi íþróttahéruð og skiptingu lottófjármuna.
  • Stjórnir samtakanna og nefndir sammála um tillöguna.
  • Hagsmunaaðilar víðsvegar að í starfinu, stórir sem litlir um allt land.
  • Tillit tekið til víðtækra sjónarmiða.
  • Áhersla á að niðurstaðan tryggi aukið fjármagn út á land.
  • Áhersla á samræmdar reglur óháð aðild að samtökunum.
  • Áhersla á að uppfylla markmið samtakanna og stjórnvalda.

Frá sambandsþingi UMFÍ

Tillaga sem samþykkt var á þingi um íþróttahéruð:
„53. Sambandsþing UMFÍ haldið á Hótel Geysi í Haukadal 20.-22. október 2023, samþykkir að UMFÍ, í samráði við ÍSÍ og íþróttahéruðin, vinni að því að setja á laggirnar 8 starfssvæði um landið, til stuðnings íþróttahéruðum landsins. Verkefnið feli hvorki í sér breytingu á lýðræðislegri skiptingu íþróttahéraða né breytingar á atkvæðaskiptingu á þingum ÍSÍ og UMFÍ. Skilyrði fyrir slíkum starfssvæðum er að hægt verði að tryggja fjárstuðning frá ríkinu til verkefnisins, með hliðsjón af svæðisskiptum verkefnum ríkisins sem falla vel með verkefnum og skyldum íþróttahreyfingarinnar.“

Reglugerð um lottó og lottóúthlutanir

EFtirfarandi tillaga var samþykkt á 53. Sambandsþing UMFÍ. 

Lottóreglur og lottóúthlutanir

I. Skipting lottótekna UMFÍ:

  1. 79% til sambandsaðila.
  2. 14% til UMFÍ.
  3. 7% til Fræðslu- og verkefnasjóðs UMFÍ, úthlutun samkvæmt reglugerð sjóðsins.

II. Skipting lottótekna sambandsaðila UMFÍ: 

Hluti sambandsaðila (79%) verði skipt þannig:

  • 15% til reksturs svæðisskrifstofa íþróttahéraða.
  • 85% til íþróttahéraða eftir íbúafjölda 18 ára og yngri 31. desember næstliðins árs.

III. Regla vegna skiptingar til reksturs svæðisskrifstofa íþróttahéraða

Úthlutun á hluta til reksturs svæðisskrifstofa er ekki háð skilyrðum. 

IV. Regla vegna skiptingar til sambandsaðila

Skilyrði fyrir úthlutun hvers árs til sambandsaðila er að fulltrúi þeirra hafi mætt á síðastliðið sambandsþing / sambandsráðsfund. Hlutur þeirra sem mæta ekki skerðist og er hlutfall ákvarðað af stjórn UMFÍ og kynnt með fundarboði. Stjórn UMFÍ er einnig heimilt að víkja frá skerðingum vegna mætingar komi upp óvænt og ófyrirséð atvik (t.d. veður eða óhöpp).

Eigi íþróttahérað ekki aðild að UMFÍ skal hlutur þess reiknaður í samræmi við reglurnar um íbúafjölda 18 ára og yngri 31. desember næstliðins árs. Hlutdeild íþróttahéraðsins er deilt út til UMFÍ en áður skal taka tillit til þess að ef innan íþróttahéraðsins sé félag með beina aðild að UMFÍ þá fær viðkomandi félag fjárhæð sem nemur hlutdeild þess af iðkendum 18 ára og yngri innan íþróttahéraðsins skv. nýjustu starfsskýrsluskilum í skilakerfi íþróttahreyfingarinnar.

V. Um úthlutunFyrir 15. hvers mánaðar skal úthluta öllum ágóða sem borist hefur fyrir næsta mánuð á undan. Með hverri greiðslu skal fylgja skilagrein sem sýni forsendur fyrir úthlutun.

Fyrirvari
Þessar breytingar taka gildi eftir að samningar nást við ríkisvaldið um að það leggi fram sambærilegan fjárhagslegan stuðning til svæðisskrifstofa íþróttahéraða, m.a. með vísan til farsældarlaga nr. 86/2021. Fram til þess tíma gilda áðurgildandi reglur. Hafi samkomulag milli UMFÍ, ÍSÍ og stjórnvalda ekki náðst fyrir sambandsþing UMFÍ 2025, skal sambandsþing þá taka afstöðu til framhalds málsins.

 

Tillaga, framtíðar og markmið með fyrirkomulagi svæðastöðva

Tillagan um svæðastöðvar

  • Efla íþróttahéruðin með því að koma á fót sameiginlegum starfsstöðvum.
  • Starfsstöðvarnar hafa það hlutverk að þjónusta íþróttahéruðin í nærumhverfi sínu með samræmdum hætti.
  • Horft er til þess að sterkari íþróttahéruð og starfsstöðvar um allt land auki skilvirkni innan íþróttahreyfingarinnar og geri þeim kleift að takast á við núverandi og fyrirséð verkefni.
  • Styrkja stefnumótandi vinnu og aðgerðir á landsvísu og stuðla þannig að farsæld barna og annarra sem nýta þjónustu hreyfingarinnar.

Framtíðarsýn með fyrirkomulagi svæðastöðva

  • Að fyrirkomulagið muni skila sér í betri nýtingu á mannauð, stuðningur við einstaka íþróttafélög verði meiri og þar af leiðandi verði þjónusta við iðkendur betri.
  • Að sem flestir hafa tækifæri til að stunda íþróttir á því sviði sem þeir ljósa, hvort heldur til ánægju, heilsubótar eða með afreksárangur að markmiði. 

Markmið

  • Að ná fram markmiðum sem stjórnvöld hafa sett með lögum um farsæld barna, íþróttalögum, íþróttastefnu ríkisins ásamt byggðaráætlun stjórnvalda.

Skipulagið

Skipulagið miðast m.a. við að hægt sé að eiga gott samstarf og styðja vel við íþróttahéruðin, ásamt því að geta átt í góðu samstarfi við landshlutasamtök sveitarfélaga eða sveitarfélögin.