Skólabúðir á Reykjum
Að mörgu er að huga fyrir komu nemendahóps í Skólabúðir UMFÍ á Reykjum. Fyrirhyggja og góður undirbúningur reynist alltaf bestur. Skólastjórnendur og fararstjórar eru hvattir til þess að kynna sér vel allar upplýsingar. Eins er velkomið að hafa samband við Sigurð Guðmundsson forstöðumann ef eitthvað er óljóst. Netfangið hans er siggi@umfi.is
Skólastjórnendur
-
Einungis skólastjórnendur grunnskóla geta bókað dvöl fyrir skólahópa. Stjórnendur eru beðnir um að hafa samband við Sigurð Guðmundsson forstöðumann ef áhugi er fyrir dvöl í gegnum netfangið siggi@umfi.is.
Hver skóli þarf að manna fararstjóra með hópnum. Æskilegt er að uppistaða fararstjórateymisins séu kennarar nemenda sem bókað er fyrir. Gott er að miða við einn fararstjóra á hverja tuttugu nemendur. Þegar sótt er um þarf að tilkynna hver verður aðalfararstjóri og ber ábyrgð á undirbúningi nemenda og fararstjórateymis. Fararstjórar sjá um frívaktir og sinna nemendum í frítíma. Starfsfólk búðanna sjá um námskeið sem eru yfirleitt frá kl. 09:30 - 17:00 á daginn.
Skólarnir þurfa sjálfir að sjá um akstur til og frá búðunum. Mæting er kl. 11:00 á mánudegi og brottför er kl. 16:00 á fimmtudegi.
Litið er svo á að þegar skólastjórnandi bókar dvöl sé hann að samþykkja reglur og fyrirkomulag sem er í búðunum.
Verð á nemanda er 34.000 kr. Kennarar eða fylgdarmenn greiða ekkert.
Vinsamlegast hafið samband við forstöðumann fyrir nánari upplýsingar um bókanir.
-
Ef tjón verður í búðunum sem nemendur valda viljandi eða óviljandi ber skólinn ábyrgð á því að það verði bætt. Forstöðumaður útbýr tjónaskýrslu sem báðir aðilar fá eintak af, síðan er skólanum sendur reikningur fyrir tjóninu.
Ef til þess kemur að vísa þurfi nemanda heim, er það á ábyrgð viðkomandi grunnskóla að koma nemandanum heim. Nauðsynlegt er að verkferlar séu fyrir hendi af hálfu skólans fyrir brottför.
Skila þarf tímanlega inn upplýsingum til forstöðumanns um þann fjölda sem kemur.
Fararstjórar
-
Fararstjóri er sá sem ber ábyrgð á því að vera í samskiptum við búðirnar við undirbúning dvalar. Fararstjóri þarf að hafa samband við forstöðumann með lágmark þriggja vikna fyrirvara og staðfesta fjölda nemenda sem reiknað er með að komi. Í framhaldinu er herbergjaskipan send til viðkomandi.
Æskilegast er að aðalfararstjóri dvelji í búðunum allan tímann.
Aðalfararstjóri ber ábyrgð á því að undirbúa fararstjórateymið sem kemur í Skólabúðirnar á Reykjum. Hann ber ábyrgð á að fararstjórarteymið sé vel undirbúið og að allir séu búnir að kynna sér vel handbók fararstjóra.
Reynsla fararstjóra er sú að ekki þykir gott að skipta út fararstjórum í vikunni. Það er ekki gott fyrir þá fararstjóra sem eru alla vikuna að hafa aðra með sem koma og fara. Best er að allir fararstjórar séu allan tímann á Reykjum.
Mæting er kl. 11:00 á mánudegi, brottför kl. 16:00 á fimmtudegi.Fararstjórar eru hvattir til þess að kynna sér vel HANDBÓK FARARSTJÓRA fyrir komuna á Reyki.
-
Við leggjum mikið upp úr því að kennurum sem fylgja skólahópunum líði vel í Skólabúðunum á Reykjum. Við höfum útbúið sérstök afþreyingarými fyrir kennara. Þar er hægt að slaka á, fá sér kaffi og spjalla á milli vakta.
Í herbergjum kennara eru sængur og rúmföt.
Okkur þykir afar gott að fá ábendingar um allt það sem má fara betur.Endilega látið heyra í ykkur!
-
Nauðsynlegt er að tilkynna ofbeldis- eða eineltismál til viðeigandi aðila. Hér má sjá feril yfir það hvernig tilkynning getur borist eftir öruggum boðleiðum til þeirra sem bera ábyrgð, og í kjölfarið til samskiptaráðgjafa sem aðstoðar við vinnslu slíkra mála.
Athugið að hægt er að byrja hvar sem er innan ferilsins. Mikilvægast er að traust ríki á milli aðila. Einnig má leita beint í samskiptaráðgjafa.